Samið um rannsókn á iðragerjun nautgripa

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, undirrituðu í gær samning þar sem umhverfis-og auðlindaráðuneytið styður við rannsóknir til að bæta þekkingu og grunnupplýsingar um metanlosun vegna iðragerjunar nautgripa.
Með samningnum eru tryggð kaup og uppsetning á viðurkenndum búnaði sem mælir metanlosun frá búfé.

Í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum er kveðið á um bætta fóðrun búfjár til að draga úr iðragerjun. Meginþorra þeirrar losunar gróðurhúsalofttegunda sem kemur frá búfjárrækt má rekja til gerjunar sem á sér stað í iðrum búfjár. Þegar kýr og kindur jórtra ropa þær upp metani sem er öflug gróðurhúsalofttegund, raunar meira en tuttugu sinnum öflugri en CO2.

Markmið rannsóknarverkefnisins er að rannsaka metanlosun íslenskra mjólkurkúa, sem og að rannsaka hvernig megi minnka losun frá jórturdýrum með breyttri fóðrun.

Rannsóknir erlendis benda til að hægt sé að draga úr framleiðslu metans í meltingarvegi búfjár með ýmsum leiðum, svo sem með því að nota efni úr þörungum. Með rannsókninni nú verður kannað hvort hægt sé að draga úr slíkri losun hér á landi og stuðla að rannsóknum og þróun innanlands.

Niðurstöður rannsóknanna munu nýtast til þess að móta leiðir að kolefnishlutleysi í nautgriparækt sem kveðið er á um í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.
Þá eru niðurstöðurnar mikilvægur þáttur í að bæta upplýsingar fyrir losunarbókhald Íslands, varðandi mat á losun frá landbúnaði.

DEILA