Í haust hófu 43 nemendur nám í tveimur námsleiðum á meistarastigi við Háskólasetur Vestfjarða. Þar með hefur fjöldi nemenda sem innritast í meistaranám við Háskólasetrið tvöfaldast frá því að ný námsleið, Sjávarbyggðafræði, hóf göngu sína við setrið haustið 2019. Þessi fjölgun er í samræmi við þau markmið sem Háskólasetrið setti sér með nýju námsleiðinni en fyrir var námsleiðin Haf- og strandsvæðastjórnun sem hóf göngu sína haustið 2008. Báðar námsleiðirnar eru kenndar í samstarfi við Háskólann á Akureyri.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Háskólasetri Vestfjarða.
Fjölgun íbúa á Ísafirði
Báðar námsleiðirnar eru kenndar í staðnámi og því er um að ræða umtalsverða fjölgun íbúa á Ísafirði fyrir tilstuðlan þeirra. Auk nemenda á fyrsta ári eru um tveir þriðju hluti annars árs nemenda einnig búsettir á Ísafirði í vetur eða u.þ.b. 20 manns. Þar að auki bætast við 10 nemendur í annarnámi frá samstarfsskólanum SIT í Vermont í Bandaríkjunum. Heildarfjöldi háskólanema með búsetu á Ísafirði er því kominn vel yfir 70 talsins. Þetta er umtalsverður fjöldi í byggðakjarna sem telur 2.700 manns, eða um 2,7% íbúa. Til samanburðar má nefna að staðnemar við Háskólann á Akureyri telja um 4% mannfjöldans þar og allir innritaðir nemendur (fjarnemar og staðnemar) í Háskóla Íslands telja um 6,6% mannfjölda á höfuðborgarsvæðinu. Ísafjarðarbær er því að verða sannkallaður háskólabær.
Gagnaöflun sem unnin var í tengslum við 15 ára yfirlitsskýrslu Háskólaseturs leiddi auk þess í ljóst að á 10 ára tímabili (2008-2018) eru 12% útskrifaðra nemenda búsettir á Vestfjörðum tveimur árum eftir útskrift. Margir þeirra hafa sest að á svæðinu til enn lengri tíma og taka þátt í atvinnulífinu.
Aukin umsvif
Þessi auknu umsvif hafa víðtæk áhrif út í samfélagið og þýða að Háskólasetrið sækir í auknum mæli þjónustu til fyrirtækja og stofnana á Vestfjörðum. Til dæmis hefur fjölgunin það í för með sér að Háskólasetrið leigir sal undir kennslu í Edinborgarhúsinu nú á haustönn og nýtir áður ófullnýtta heimavist Menntaskólans fyrir nemendur í annarnámi frá SIT. Hingað til hefur húsnæðismarkaðurinn á Ísafirði ráðið við nemendafjöldann og hafa einstaklingar og leigufyrirtæki brugðist við með því að auka framboð af hentugu húsnæði. Þó er ljóst að horfa þarf til framtíðar hvað nemendahúsnæði varðar, einkum þegar ferðaþjónusta heldur áfram að eflast. „Háskólasetrið hefur náð góðri stærð og með tilkomu námsleiðarinnar í sjávarbyggðafræði er að teiknast upp framtíðarmynd,“ segir Peter Weiss forstöðumaður Háskólaseturs. „Þannig verða á hverjum tíma innritaðir upp undir 100 nemendur á vegum Háskólasetur Vestfjarða í HA og þar af 70-75 búsettir á Ísafirði, auk starfsmanna, kennara og rannsóknarmanna. Þetta er góð stærð og hér hefur myndast „krítískur massi“ sem þarf að efla og vinna út frá á næstu árum.“