Bíldudalur: Muggsstofa opnuð á föstudaginn

Föstudaginn 1. október  á milli kl. 14:00 og 18:00 verður Muggsstofa opnuð á Bíldudal.

Muggsstofa er samstarfsverkefni Vesturbyggðar og Skrímslasetursins en þar verður aðgangur að opinberri þjónustu svo sem bókasafni og félagsstarfi aldraðra ásamt aðstöðu til sköpunar og frumkvöðlastarfs. Mikilvægur hluti starfseminnar er líka fólginn í að kynna og varðveita fjölbreytta og oft ævintýralega sögu Bíldudals.

Nafnið Muggsstofa er dregið af fjöllistamanninum Guðmundi Thorsteinssyni sem er betur þekkur sem Muggur. 

Muggur var sonur Péturs J. Thorsteinssonar og Ásthildar Guðmundsdóttur og fæddist á Bíldudal 1891. Pétur var athafnamaður á Bíldudal og Vestfjörðum, átti verslun, stundaði þilskipaútgerð og stofnaði Milljónafélgið. Hann var einn ríkasti maður á Íslandi á sínum tíma og þótti fjölskyldan sérlega glæsileg og líf hennar ævintýri líkast.

Á opnuninni verða Bíldudalshlunkar til sýnis en Pétur Thorsteinsson fékk leyfi til að nota sérstaka mynt með upphafsstöfum sínum sem giltu fyrir kaup á vörum í verslunum í hans eigu. Myntin var innkölluð skv lagafyrirmælum 1. maí 1902 og er því um einstakt tækifæri að ræða að berja slíka gripi augum.

Einnig verður listasmiðja fyrir börn á sama tíma þar sem börnin í samfélaginu geta komið saman og búið til listaverk sem mun hanga á Muggsstofu.

Til gamans má líka geta þess að laugardaginn 2. október mun yfirlitssýning á verkum Muggs verða opnuð í Listasafni Íslands og sunnudaginn 3. október verður Saga Borgarættarinnar frumsýnd samtímis í Hofi á Akureyri, Bíó Paradís í Reykjavík og Herðubíói á Seyðisfirði en Muggur fór einmitt með aðalhlutverkið í myndinni.

Það verður því sannkölluð Muggs-veisla um allt land um næstu helgi.