Alþingi fær kröfu um uppkosningu

Fulltrúi Pírata í Norðvesturkjördæmi Magnús Norðdahl hefur ákveðið að kæra framkvæmd kosninga í Norðvesturkjördæmi til kjörbréfanefndar Alþingis og fer hann fram á svokallaða uppkosningu sem felur í sér að kosið verði að nýju í Norðvesturkjördæmi. Kæran verður lögð fram formlega á næstu dögum. Eftir atvikum verður kæra einnig send til lögreglu.

Magnús segir í tilkynningu að ljóst sé að alvarlegir ágallar hafi verið voru á talningu atkvæða í Norðvesturkjördæmi.

Nefnir hann sérstaklega að kjörgögn voru ekki innsigluð eftir lok talningar snemma morgun 26. september heldur skilin eftir á Hótel Borgarnesi í sal hótelsins þegar talningafólk fór heim. „Varsla og eftirlit á þeim tíma, sem leið frá lokum talningar og fram að endurtalningu, þegar starfsfólk mætti aftur liggur ekki fyrir með fullnægjandi hætti. Hótelið var opið og þar mátti sjá gesti þegar endurtalning fór fram. Hafi salnum verið læst var hann ekki innsiglaður og þá liggur ekki fyrir hver eða hverjir höfðu lykla að umræddum sal.

Þá hófst endurtalning atkvæða án þess að umboðsmönnum lista Pírata í Norðvesturkjördæmi væri gert viðvart. Formaður kjörstjórnar varð síðan ekki við kröfu umboðsmanna að bíða með endurtalningu þar til umboðsmenn kæmu á staðinn.

Framangreind atriði, hvert um sig og eins öll saman, eru að mati oddvita Pírata háalvarleg og til þess falin að draga úr trúverðugleika talningarinnar, sama hvort litið er til fyrri eða síðari talningarinnar, starfa yfirkjörstjórnar í heild og þar með trúverðugleika kosninganna sem fram fóru í kjördæminu.“

Landskjörstjórn hefur aflað sér upplýsinga frá yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis og segir í bókun seint í gær að ekki hefði borist staðfesting frá yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis að meðferð kjörgagna hefði verið fullnægjandi.

Það þýðir að málið gengur til Alþingis sjálfs sem tekur afstöðu til kröfunnar og ákveður hvort ágallarnir séu það alvarlegir að ástæða sé til þess að ógilda kosninguna í kjördæminu.

Landskjörstjórn gefur út kjörbréf til nýkjörinna alþingismanna næstu daga og verður miðað við seinni tölur yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi og þá sem náðu kjöri miðað við þær.

Samkvæmt stjórrnarskránni sker Alþingi sjálft úr, hvort þingmenn þess séu löglega kosnir. Í lögum um kosningar til Alþingis er kveðið á um gildi kosninga. Þar segir að ef „Alþingi berst kæra um að nýkosinn þingmann skorti skilyrði fyrir kjörgengi eða sé á annan hátt ólöglega framboðinn eða kosinn rannsakar það kæruna og fellir úrskurð um hana jafnframt því sem það rannsakar kjörbréf hvers nýkosins þingmanns ásamt gögnum þeim er Alþingi berast frá landskjörstjórn og yfirkjörstjórn viðvíkjandi kosningu hans, og úrskurðar um gildi kosningarinnar á þann hátt sem nánar er fyrir mælt í þingsköpum.“

Þá segir í sömu lögum að hafi Alþingi úrskurðað kosningu heils lista í kjördæmi ógilda skuli þá uppkosning fara þar fram innan mánaðar frá úrskurði Alþingis. Kosið verður þá um öll 7kjördæmasæti kjördæmisins auk jöfnunarsætisins og geta úrslitin haft áhrif á öll 9 jöfnunarþingsætin á landinu.