Borist hefur sameiginleg yfirlýsing Bolungavíkurkaupstaðar og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar vegna umfjöllunar um útgáfu byggingarleyfis fyrir útsýnispall á Bolafjalli við Bolungarvík:
„Vinna við undirbúning og framkvæmdir við útsýnispall á Bolafjalli hafa staðið yfir í tvö ár og að verkefninu hafa komið margvíslegir aðilar með sérfræðiþekkingu í mannvirkjahönnun eins og Efla verkfræðistofa, Landmótun, Sei Arkitektar og Eykt sem er aðalverktaki yfir verkinu. Stálvirkið var hannað í nánu samstarfi og framleitt af alþjóðlega verktakafyrirtækinu Yabimo sem hefur gríðarlega mikla reynslu í smíði og uppsetninga á stálvirkjum um allan heim. Fyrirtækið hefur m.a. unnið fyrir ýmsa aðila hér á Íslandi við góðan orðstír.
Verið er að yfirfara gögn vegna útsýnispallsins á Bolafjalli og mun það klárast á næstu dögum. Í framhaldi af því verður byggingarleyfi gefið út. Vinna við byggingarleyfið er samvinnuverkefni Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Bolungarvíkurkaupstaðar.
Vinna við að yfirfara gögn og afla frekari gagna tafðist því miður af óviðráðanlegum orsökum hjá báðum aðilum og því náðist ekki að gefa út byggingarleyfi á tilsettum tíma. Það er hinsvegar álit Bolungarvíkurkaupstaðar að hönnun pallsins og framkvæmdin sjálf standist allar þær gæðakröfur sem nauðsynlegar eru vegna framkvæmdar af þessari stærðargráðu. Pallurinn er öruggt mannvirki sem stenst allar kröfur byggingarreglugerðar þess efnis.
Útsýnispallurinn á Bolafjalli mun án efa vekja mikla athygli þeirra ferðamanna sem sækja Ísland og Vestfirði heim og verða framkvæmdaraðilum hans til sóma.“