Bæjarins besta hefur sent oddvitum allra framboðslista í Norðvesturkjördæmi þrjár spurningar um stefnuna í þremur mikilvægum málum Vestfirðinga, fiskeldi, virkjunvatnsafls og vegagerð í Gufudalssveit.
Hér koma svör Valgarðs Lyngdals Jónssonar, oddvita Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.
Varðandi virkjanahugmyndir þá eru það Hvalárvirkjun og Austurgilsvirkjun sem eru í nýtingarflokki í Rammaáætlun og svo er það Vatnsfjarðarvirkjun sem Orkubú Vestfjarða hefur áhuga á að láta rannsaka frekar og jafnvel ráðast í.
Hver er afstaða þín og/eða flokksins til þessara virkjunarkosta?
Svör:
Ég er fylgjandi Rammaáætlun, þ.e.a.s. ég er fylgjandi því að slík áætlun sé til staðar og að eftir henni sé unnið, að því gefnu að hún sé uppfærð og endurskoðuð reglulega eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Núverandi ríkisstjórn hefur hins vegar klúðrað Rammaáætlun gjörsamlega, 3. áfangi hefur ekki enn fengið afgreiðslu á þingi og 4. áfangi er þar af leiðandi stopp. Það verður eitt af verkefnum næstu ríkisstjórnar að greiða úr málum varðandi Rammaáætlun, þannig að eftir henni megi vinna í virkjunarmálum.
Stefna Samfylkingarinnar er að meginhluti raforkuframleiðslu á Íslandi verði áfram á hendi ríkis og sveitarfélaga og leggst m.a. gegn hugmyndum um einkavæðingu eða uppskiptingu Landsvirkjunar. Þá teljum við að fara þurfi í stórátak til styrkingar á flutnings- og dreifikerfi raforku til að auka afhendingaröryggi og aflgetu um allt land. Á þetta ekki síst við um Vestfirði. Mín skoðun er sú að ef virkjað er á Vestfjörðum þá eigi það að vera í þágu Vestfjarða, þ.e. til að tryggja raforku og afhendingaröryggi til byggða og atvinnulífs á Vestfjörðum.
Varðandi Vatnsfjarðarvirkjun tel ég að leita þurfi leiða til að haga friðlýsingarskilmálum þannig að rými verði fyrir virkjun í Vatnsfirði.
Vegagerð í Gufudalssveit er hafin og á dögunum var lokið samningum við landeigendur. Málið hefur verið umdeilt og verið nærri 20 ár í deiglunni.
Munt þú eða flokkurinn styðja þetta mál eða leitast við að fara aðra leið?
Svör:
Ég fagna því að vegagerð sé hafin og endanleg veglína ákveðin og hvet til þess að lagningu vegarins verði lokið án tafa, ásamt öðrum brýnum vegaframkvæmdum á Vestfjörðum.
Laxeldi í vestfirskum fjörðum er orðinn stór atvinnuvegur og getur á næstu árum tvöfaldast með nýjum framleiðsluleyfum.
Munt þú og/eða flokkurinn styðja við uppbygginguna og hver er stefnan varðandi þennan atvinnuveg?
Svör:
Ég tel að sjálfbær uppbygging fiskeldis sé eitt stærsta hagsmunamálið í atvinnulífi á Vestfjörðum. Stjórnvöld þurfa að búa atvinnugreininni skilyrði svo hún geti vaxið í sátt við umhverfi, mannlíf og náttúru. Samfylkingin setur skilyrði um strangar umhverfiskröfur í fiskeldi, að vísindalegri ráðgjöf sé fylgt og fiskeldi aðeins heimilað á afmörkuðum svæðum. Tryggja verður að þjóðin njóti arðs af auðlindum sínum og á það við um fiskeldi eins og aðrar atvinnugreinar sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Tryggja verður lýðræðislega aðkomu íbúa að ákvörðunum um uppbyggingu fiskeldis í umhverfi þess og að tekjur skili sér til nærsamfélagsins á sanngjarnan hátt, t.d. í formi aðstöðugjalda. Regluverkið í kringum starfsemina þarf að vera bæði skilvirkt og sanngjarnt og tryggja meðal annars að fyrirtæki í fiskeldi starfi samkvæmt þeim leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. Þegar gætt er að öllum þessum atriðum er fiskeldi fýsilegur kostur til atvinnuuppbyggingar í þágu almannahagsmuna og getur valdið straumhvörfum í efnahagslífi og íbúaþróun.