Merkir Íslendingar – Brynjólfur Árnason

Brynjólfur Sigurður Árnason fæddist í Minna-Garði í Dýrafirði þann 12. júlí 1921.

Foreldrar hans voru Árni Kristján Brynjólfsson, bóndi á Kotnúpi í Dýrafirði, f. 10. september 1887, d. 1977, og Hansína Guðrún Guðjónsdóttir, ljósmóðir í Dýrafirði, f. 3. nóvember 1887, d. 1966. Bróðir Brynjólfs var Guðjón Arnór, f. 13. júní 1916, d. 8. maí 2012.

 Eiginkona Brynjólfs var Brynhildur Kristinsdóttir, f. 25. júlí 1935, frá Vífilsmýrum í Önundarfirði. Þau gengu í hjónaband 25. apríl 1957 og stunduðu búskap á Vöðlum í Önundarfirði til 2011 er þau fluttu í þjónustuíbúð á Hlíf á Ísafirði og síðar á dvalarheimilið Tjörn á Þingeyri. Brynhildur lést þann 8. apríl 2020

Börn þeirra eru:

1) Gunnhildur Jóna, Flateyri, f. 1957. Maki Þorsteinn Jóhannsson, f. 1952.

Börn þeirra: a) Arnór Brynjar, f. 1982, maki Isak Gustavson, b) Jón Ágúst, f. 1986, maki Hrefna Erlinda Valdemarsdóttir. c) Jóhann Ingi, f. 1989, maki Gerður Ágústa Sigmundsdóttir.

2) Árni Guðmundur, Vöðlum, f. 1963. Maki Erna Rún Thorlacíus, f. 1961.

Börn þeirra: a) Jakob Einar, f. 1983 (faðir Jakobs er Jakob Jakobsson) maki Sólveig Margrét Karlsdótti , b) Brynjólfur Óli, f. 1989. c) Benjamín Bent, f. 1995,  maki hans er Rakel Ósk Rögnudóttir.

3) Guðrún Rakel, Þingeyri, f. 1970. Maki er Jón Sigurðsson, f. 1973.

Börn þeirra: a) Hildur f. 1991, maki Emil Ólafur Ragnarsson, b) Agnes, f. 1997, maki Andri Marinó Karlsson (faðir Hildar og Agnesar er Sólmundur Friðriksson), c) Hanna Gerður, f. 2003.

Brynjólfur flutti með foreldrum sínum og bróður að Kotnúpi í Dýrafirði á fyrsta ári og ólst þar upp. Hann lærði á orgel, nótnalestur og tónfræði fyrir fermingu hjá sr. Sigtryggi á Núpi og Hjaltlínu konu hans, en hún var móðursystir Brynjólfs.

Brynjólfur varð búfræðingur frá Hvanneyri 1945 og árið eftir keyptu bræðurnir Vaðla í Önundarfirði, sem höfðu verið í eyði í eitt ár. Árið 1947 flutti öll fjölskyldan, ásamt Rakel móður Hansínu, að Vöðlum þar sem þeir bræður byggðu upp öll hús og ræktuðu tún. Einnig byggðu þeir heimarafstöð árið 1952 sem dugði fyrir heimilið og búið og gengur enn fyrir gömlu húsin.

Meðfram búskap gegndi Brynjólfur ýmsum trúnaðar- og félagsstörfum, s.s. í sóknarnefnd, búnaðarfélagi og hreppsnefnd Mosvallahrepps, en þar var hann oddviti 1982-1986.

Brynjólfur var organisti í Holtskirkju í um 40 ár, allt til ársins 2000. Hann spilaði jafnframt í afleysingum í sex kirkjum á svæðinu þegar mest var. Tíu árum seinna, 2010, gaf hann út nótnabók með eigin sönglögum við ljóð Guðmundar Inga Kristjánssonar frá Kirkjubóli í Bjarnardal, Önundarfirði.

Brynjólfur spilaði einnig á harmonikku og spilaði á böllum og samkomum til margra ára. Það var hans helsta dægrastytting að spila á nikkuna síðustu ár meðan kraftar hans leyfðu.

Brynjólfur Árnason lést á Hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík þann 8. október 2018.  

Útför hans fór fram frá Holtskirkju í Önundarfirði  20. október 2018.

 Fjölskyldan á Vöðlum í Önundarfirði fyrir 50 árum.F.v.: Brynjólfur Árnason, Rakel Brynjólfsdóttir, Gunnhildur J. Brynjólfsdóttir,Árni Brynjólfsson og Brynhildur Kristinsdóttir.

Skráð af Menningar-Bakki.