Ísafjarðarhöfn: 1.583 tonna afli í júní

Júlíus Geirmundsson ÍS og Páll Pálsson ÍS að landa í Ísafjarðarhöfn. Mynd: Ísafjarðarhöfn.

Alls bárust að landi í Ísafjarðarhöfn 1.583 tonn af fiski í síðasta mánuði. Enginn færaafli var skráður í mánuðinum og aðeins ein löndun á línuafla, Sighvatur GK var með 52 tonn.

Júlíus Geirmundsson ÍS landaði tvisvar í mánuðinum samtals 370 tonnum af afurðum. Páll Pálsson ÍS fór í sjö veiðiferðir og var alls með 785 tonna afla. Stefnir ÍS fór tvær veiðiferðir og var með 181 tonn.

Tveir bátar lönduðu 71 tonni af rækju. Klakkur ÍS var með 33 tonn í einni veiðiferð og Valur ÍS var með 38 tonna afla i 8 róðrum.

Loks má geta þess að Sveinbjörn Hjálmarsson kafari kom með 330 kg af ígulkerjum að landi.

DEILA