Uppskrift vikunnar

Í ljósi veðurfrétta um áframhaldandi kulda í júní finnst mér upplagt að vera með eina góða súpu uppskrift þessa vikuna.

Þetta er mjög klassísk tælensk kjúklingasúpa, afskaplega bragðmikil, hlýjandi og góð. Innihaldslistinn er frekar langur en oft ef ég á ekki til allt eða finn ekki í búðum er í fínasta lagi að sleppa eða skipta út fyrir svipað.

Innihald

1 Rauðlaukur, skorinn í þunnar sneiðar

3 hvítlauksrif, söxuð smátt

3-4 vorlaukar, skornir í sneiðar

3 cm bútur engifer, smátt skorinn (þumalstærð af engifer)

1 tsk chillimauk, (t.d Sambal Oelek sem fæst í Bónus)

1 msk kókosolía eða venjuleg matarolía (kókosolían gefur mjög gott bragð)

1,5 l vatn

2 kjúklingateningar

1 tsk turmerik

1 msk sojasósa

1 tsk fiskisósa

1 – 2 lime

2 tsk hunang

2 fernur kókosmjólk

1/2 búnt kóríander, saxað

3 kjúklingabringur

Aðferð

Kókosolían brædd við frekar háan hita í súpupottinum. Rauðlaukur, vorlaukur, hvítlaukur, engifer og chillimaukið steikt í pottinum í stutta stund.

Svo er vatninu hellt yfir ásamt kjúklingateningum, turmerikinu, sojasósu, fiskisósunni, kókosmjólkinni, safanum úr lime-inu, ásamt skrælinu röspuðu af öðru þeirra og hunanginu. Meðan suðan kemur upp er kjúklingurinn skorinn í litla teninga og settur út í sjóðandi súpuna, ásamt kóríander.

Látið sjóða í um það bil 10 – 12 mínútur eða þar til kjúklingurinn er tilbúinn. Borin fram rjúkandi heit með smá söxuðu kóríander.

Verði ykkur að góðu.

Halla Lúthersdóttir

DEILA