Haraldur tekur 2. sætið

Haraldur Benediktsson, alþm. hefur ákveðið að þiggja annað sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Þetta kemur fram í viðtali við hann í Skessuhorni.

Haraldur sóttist efstir því að vera áfram í efsta sæti en varð í öðru sæti í nýafstöðnu prófkjöri.

Í viðtalinu segir Haraldur:

„Í ljósi þess að ég stefndi á fyrsta sætið í prófkjörinu var ég ekki sannfærður um hvort ég tæki annað sætið, gæfi nýjum oddvita sviðið óskert. Vildi í það minnsta hugsa minn gang og heyra hljóðið í flokksforystunni og baklandi mínu. Ég hef á síðustu dögum meðtekið gríðarlegan fjölda áskorana um að þiggja annað sætið á listanum. Þar eiga í hlut bæði dyggir stuðningsmenn mínir í gegnum tíðina og einnig óflokksbundið fólk sem annt er um stöðu landsbyggðarinnar. Ég get því ekki litið framhjá þeirri staðreynd að þrátt fyrir allt virðist ennþá vera eftirspurn eftir störfum mínum á þingi. Ég get því upplýst að ég lýsi mig tilbúinn í framboðsslaginn,“

Þetta þýðir að Teitur Björn Einarsson verður í þriðja sætinu og flyst ekki upp í það annað eins og hefði gerst ef Haraldur hefði afþakkað annað sætið.

DEILA