Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur undirritað reglugerð um slátrun í litlum sauðfjár- og geitasláturhúsum sem heimilar bændum að slátra sauðfé og geitum á búunum sjálfum og dreifa á markaði.
Slík framleiðsla og dreifing hefur hingað til verið óheimil. Í reglugerðinni er kveðið á um að dýralæknar sinni heilbrigðisskoðunum bæði fyrir og eftir slátrun og mun kostnaður þess greiðast úr ríkissjóði.
Áður en starfsemi lítils sauðfjár- og geitasláturhúss hefst er nauðsynlegt að fá útgefið starfsleyfi hjá Matvælastofnun.
Kröfur sem gerðar eru í tengslum við slátrun í litlum sauðfjársláturhúsum eru margþættar og snerta m.a. hreinlæti, dýravelferð, vatnsgæði, meðhöndlun úrgangs og rekjanleika. Til staðar þarf að vera gæðakerfi byggt á HACCP reglum til að stjórna þeirri áhættu sem er fyrir hendi og tryggja matvælaöryggi. Þættirnir sem þarf meðal annars að líta til eru skýr aðskilnaður á milli hreinna og óhreinna svæða. Þrifaaðstaða þarf að vera góð og það þarf að vera auðvelt að þrífa alla fleti, sérstaklega þá sem komast í snertingu við afurðir sem fara til manneldis. Opinber dýralæknir skoðar sláturgripi fyrir slátrun og afurðir eftir slátrun.
Sá sem aflífar gripi þarf að ljúka rafrænu námskeiði á vegum Matvælastofnunar og standast hæfismat sem fer fram í hinu litla sauðfjár- og geitasláturhúsi.