Sirrý ÍS: Verðlagsstofa skiptaverðs telur uppboðskostnað ofreiknaðan

Í lok síðasta mánaðar gerði Verðlagsstofa skiptaverðs formlega athugasemd við uppboðskostnað sem dregin var frá aflaverðmæti áður en hlutur sjómanna er ákvarðaður og taldi hann of háan. Verðlagsstofan tók til athugunar launauppgjör við áhöfn Sirrýar ÍS 36 fyrir júlí – október 2020. Á þeim tíma var aflaverðmætið 39,2 m.kr og uppboðskostnaður til fiskmarkaðar var 2,8 m.kr. eða 7,2%.

Ágústmánuður skar sig úr því þá var uppboðskostnaðurinn 1,7 m.kr. eða 24,2% af aflaverðmæti mánaðarins. Athugun málsins leiddi í ljós að uppboðskostnaðurinn var að mestu fyrir beina sölu fisks í gegnum markaðinn en ekki uppboðssölu. Í skýringum útgerðar kemur fram að hún telji að með þessu fáist hærra verð fyrir fiskinn og því fái áhöfnin hærri hlut.

Verðlagsstofa segir hins vegar í áliti sínu að samkvæmt kjarasamningnum aðeins sé heimilt að draga uppboðskostnað frá aflaverðmæti þegar um uppboðssölu er að ræða. Því falli kostnaður við beina sölu á útgerðina en ekki áhöfnina.

Bæjarins besta hafði samband við Jakob Valgeir ehf og innti hvort aflahlutur yrði endurreiknaður í framhaldi af áliti Verðlagsstofu og um hve háa fjárhæð væri að ræða.

Jakob Valgeir Flosason, framkvæmdastjóri sagðist ekki geta svarað þessu að svo stöddu en málið væri í athugun.

DEILA