Háskólasetur Vestfjarða tekur þátt í skipulagningu Ráðstefnu Háskóla norðurslóða (UArctic Congress) ársins 2021 ásamt öðrum íslenskum háskólastofnunum sem eiga aðild að Háskóla norðurslóða – University of the Arctic. Ráðstefnan fer fram dagana 15.-18. maí næstkomandi og er að mestu leyti rafræn.
Tilgangur ráðstefnunnar er að leiða saman fræðimenn, sérfræðinga, atvinnulíf, fulltrúa frumbyggja og nemendur til að ræða málefni norðurslóða og efla samvinnu þegar kemur að rannsóknum og stuðla að sjálfbærum lausnum á þeim áskorunum sem svæðið stendur frammi fyrir.
Peter Weiss, forstöðumaður hefur setið í undirbúningsnefnd ráðstefnunnar sem hefur verið að störfum í rúmt ár. Catherine Chambers, rannsóknarstjóri stýrir umræðum í opnunarmálstofu ráðstefnunnar og í sérstakri málstofu um þangrækt ásamt því að halda erindi í málstofu um plast í hafinu. Matthias Kokorsch, fagstjóri Sjávarbyggðafræði heldur erindi í málstofu um bláa hagkerfið og Elaina O‘Brien, nemandi í haf- og strandsvæðastjórnun er fulltrúi Íslands í málstofu ungs fólks á norðurslóðum.
Ráðstefnan er tengd formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og þar verður lögð sérstök áhersla á loftslagsmál og grænar orkulausnir, íbúa á norðurslóðum og vistkerfi sjávar á svæðinu. Einnig verður hægt að fræðast um mannréttindi, stjórnmál, jafnrétti, öryggismál og margt fleira sem tengist málefnum norðurslóða.
Málstofur sem Háskólasetrið tekur þátt í:
Laugardaginn 15. maí kl. 14:00-15:00
Opening Plenary Session: Food and Energy Security in the Arctic
Sunnudaginn 16. maí kl. 13:00-15:30
Thematic Network Oceans Food Systems
Mánudaginn 17. Maí kl. 10:30-11:30
Þriðjudaginn 18. Maí kl. 12:30-13:30
Stakeholder Engagement in the Diversification of Arctic Blue Economy Communities
Þriðjudaginn 18. Maí kl. 16:00-17:00
Closing Plenary Session: Arctic Youth Panel
Hér má nálgast dagskránna í heild sinni.
Hægt verður að skrá sig á ráðstefnuna allt til loka dagskrár, sjá nánari upplýsingar um skráningu.