Orkumálastjóri: virkjun orkunnar eins og 20 loðnuvertíðir

Guðni A. Jóhannesson, fráfarandi orkumálastjóri vék á nýafstöðnum ársfundi Orkustofnunar að þeim tekjumöguleikum sem virkjun jarðhita og vatnsafls geta fært landsmönnum. Benti hann á að síðasta loðnuvertíð sem gaf af sér 25 milljarða króna verðmæti væri svipað og orkutengdur iðnaður skapaði í útflutningstekjur af einni TWh af framleiddri orku. Ónýttir virkjunarmöguleikar væri hins vegar tuttugu sinnum meiri en loðnustofninn væri aðeins einn. Vildi Orkumálastjóri þar með minna á þau tækifæri til bættra lífskjara sem væru ónýtt.

Þá vék hann að Rammaáætlun og hvað hana hafa breyst úr tæki til að meta og raða virkjunarkostum yfir í langtíma frystigeymslu fyrir nýjar virkjunarhugmyndir.

„Rammaáætlun hefur á síðasta áratug þróast frá því að vera alhliða verkfæri til þess að meta og raða virkjunarkostum
m.t.t. nýtingar og verndar þar sem mismunandi sjónarmiðum var stefnt saman. Hún er nú orðin vettvangur
mjög einhliða og langsóttra náttúruverndarsjónarmiða og langtíma frystigeymsla fyrir nýjar virkjanahugmyndir.

Það var mikil gleði í samfélaginu þegar rættist úr síðustu loðnuvertíð þannig að úr varð verðmætasköpun sem
samsvaraði 25 milljörðum í útflutningstekjum. Það vill nú reyndar til að þetta er um það bil sama upphæð sem
orkutengdur iðnaður skapar í útflutningstekjur á hverja TWh í framleiddri raforku, sem standa má undir með u.þ.b. 120
MW jarðhita- eða vatnsaflsvirkjun.
Því miður höfum við bara einn loðnustofn en sennilega um 20 TWh í virkjunarmöguleikum í vatns og jarðhitaorku og
með því að nýta vindinn. Mönnum virðist því miður liggja mikið á að henda sem mestu af þessum möguleikum fyrir
borð þannig að kynslóðum framtíðarinnar muni örugglega ekki koma i hug að nýta þá til þess að mæta versnandi
lífskjörum og auknu atvinnuleysi.
Því hefur verið haldið á lofti að vindorkan geti sinnt okkar þörfum til framtíðar. Það eru vissulega töluverðir möguleikar
á því að bæta vindorku inn i íslenska raforkukerfið nú og nýta samlegðaráhrif með vatnsorkuverum og
uppistöðulónum. Þetta gildir þó aðeins að vissu marki og þegar því er náð krefst áframhaldandi uppbygging
vindorkunnar verulegra fjárfestinga í orkumiðlun og uppbyggingu varaafls. Orkutengdur iðnaður, hvort sem það
er málmbræðsla eða vetnisframleiðsla krefst mikilla fjárfestinga og framleiðslan þarf að vera samfelld og
truflanalaus til þess að vera samkeppnishæf.“

DEILA