Heilbrigðisstofnun Vestfjarða – sérnámslæknir í heimilislækningum ráðinn

Það vakti athygli á dögunum að myndband var birt frá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða þar sem óskað var eftir læknum til starfa. Í framhaldinu hitti blaðamaður BB Gylfa Ólafsson, forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða til að forvitnast um stöðuna.

Gylfi vildi byrja á góðum fréttum og búið er að ráða sérnámslækni í heimilislækningum og hefur hann störf í sumar. Einnig góðar fréttir að um heimamann er að ræða.

Aðspurður hvort mikið yrði um afleysingalækna segir Gylfi að eins og allar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni þarf Heilbrigðisstofnun Vestfjarða að reiða sig á verktakalækna. Gylfi segir að umsóknir hafi borist um framtíðarstörf og verið sé að vinna úr þeim umsóknum.

Því miður gangi illa að manna stöðu sálfræðings og að Heilbrigðisstofnunin sé alltaf á höttum eftir hjúkrunarfræðingum.

Tvær ljósmæður eru við störf og sinna þær Patreksfirði einnig.

Í heildina gangi mönnun því vel.

Aðspurður um komur sérfræðinga segir Gylfi að leitast hafi verið eftir því en hafi því miður sjaldan gengið upp. Einnig segir Gylfi að þar sem lausir samningar séu við sérfræðilækna sé þetta erfiðara. Vill einnig taka fram að í nýjum samningum sem verið er að vinna í við sérfræðilækna hafi Sjúkratryggingar Íslands tjáð að þær muni taka mið af þjónustu við landsbyggðina.

DEILA