Uppskrift vikunnar

Á ekki við að vera með grilluppskrift svona þar sem sumarið á víst að vera komið.

Persónulega er ég mjög mikil lambakjöts manneskja en mér finnst þessi kjúklingauppskrift mjög góð.

Uppskriftin kemur upprunalega frá Berglindi Hreiðars en ég hef aðeins átt við hana eins og mér finnst henta. Hún hefur alltaf með sætar grillaður kartöflur en mér finnst salatið nægt meðlæti.

Myndin kemur frá henni þar sem ég er algjör skussi við að taka myndir af mat, mér liggur of mikið á að borða hann.

Grillaðar kjúklingalundir

1 pakki kjúklingalundir

50 ml ólífuolía

4 msk. Teryaki BBQ sósa

1 tsk. hvítlauksduft (má sleppa)

1 tsk. Kjúklingakrydd

Aðferð

Öllu nema lundum blandað saman í skál.

Kjúklingalundum velt upp úr marineringunni, plastað og leyft að standa í kæli í að minnsta kosti klukkustund. Fínt að nýta tímann í salatið.

Grillið á heitu grilli í nokkrar mínútur á hvorri hlið og leyfið síðan að standa í nokkar mínútur.

Mexíkósósa

1 mexíkó kryddostur

400 ml rjómi

1 tsk. soyasósa

1 tsk. kjúklingakraftur

Aðferð

  1.  Setjið um 200 ml af rjómanum í pott.
  2.  Rífið ostinn út í og hrærið vel við meðalháan hita þar til osturinn er bráðnaður.
  3.  Bætið þá restinni af rjómanum saman við ásamt soyasósu og krafti.
  4.  Hitið að suðu og lækkið þá hitann vel niður og leyfið að malla, hrærið reglulega í á meðan (það er mjög mikilvægt)

Salat

Blandað veislusalat

½ mangó skorið niður

Um 20 vínber skorin niður (ég kýs græn)

Kóríander

Um ½ krukka fetaostur (mér finnst hann bestur frá Örnu)

Um 2 lúkur mulið blátt Doritos (hljómar hálfundarlega en er mjög gott)

Verði ykkur að góðu og gleðilegt grillsumar.

Halla Lúthersdóttir.

DEILA