Landsflokkurinn – nýr stjórnmálaflokkur

Nýr stjórnmálaflokkur er í burðarliðnum. Fyrsti fundurnn verður haldinn í dag frá 14 -18 á Café Roma á 2. hæð í Kringlunni og flokkurinn stofnaður formlega í framhaldinu.

Í fréttatilkynningu segir að Landsflokkurinn sé stjórnmálaflokkur með heiðarleika og samfélagslega ábyrgð
að leiðarljósi. Eftir kosningar hyggst hann starfa með öllum þeim flokkum sem láta sig velferð, félagshyggju, jafnrétti og umhverfis- og mannúðarmál varða og eru tilbúnir að varðveita réttindi þeirra verst settu í þjóðfélaginu, réttlæti, frelsi og nauðsynlegan stöðugleika í íslensku atvinnu- og efnahagslífi. Þá segir að flokkurinn vilji að skattar sem greiddir eru til ríkisins séu að mestu leyti notaðir til að styrkja innviði og stoðir samfélagsins alls. Flokkurinn er stofnaður til að þjóna almenningi í landinu af virðingu og heiðarleika.

Helstu stefnumál eru nýja stjórnarskráin, leiðrétting á málefnum aldraðra og öryrkja, uppstokkun á fiskveiðistjórnunarkerfinu, tiltekt og hagræðing í stjórnsýslu, afglæpavæðing og niðurskurður á rekstri fangelsa í landinu.

„Okkar fyrsta frumvarp til Aþingis verður nýja stjórnarskráin með endurbættum stjórnarháttum sem varða mannréttindi og mannúð gagnvart íbúum landsins. Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.“

Í stefnuskránni eru tiltekin 40 stefnuatriði, þar sem m.a. er lagt til að afnema ríkisstyrki til stjórnmálaflokka, einungis einstaklingar verði kosnir til Alþingis en ekki stjórnmálaflokkar, fiskveiðikvóti verður boðinn upp til hæstbjóðanda og til fleiri aðila yfir landið allt og að bankahrunið verði rannsakað á nýjan leik frá einkavæðingu bankanna og verða þeir sóttir til saka sem því ollu svo nokkur atriði séu nefnd.


Allar nánari upplýsingar um Landsflokkinn veitir Jóhann Sigmarsson / 6998035.
Heimaslóð; www. landsflokkurinn.is / Netfang; landsflokkurinn@landsflokkurinn.is.