Vestfirðir: hlutfallslega mest íbúafjölgun á landinu

Íbúum á Vestfjörðum fjölgaði um 0,3% mánuðina desember 2020 og janúar 2021. Er það hlutfallslega mesta íbúafjölgun á landinu á þessum tíma.  Á höfuðborgarsvæðinu var fjölgunin 0,2% á þessu tímabili og bein fækkun um 0,1% varð á Norðurlandi vestra og Vesturlandi.

Fjölgunin á Vestfjörðum var borin upp af íbúafjölgun í Vesturbyggð. Þar fjölgaði um 10 manns en alls fjölgaði um 18 manns á Vestfjörðum á tímabilinu. Í Vesturbyggð eru nú 1.075 manns búsettir. Fjölgunin varð um 12 manns í desember og 6 manns í janúar.

Aðeins fækkaði lítilsháttar í Ísafjarðarbæ og fjölgun varð í sex sveitarfélögum.  Alls voru 7.117 manns með lögheimili á Vestfjörðum 1. febrúar 2021.