Sala á íbúðum á Hlíf 1 sett á ís

Á dagskrá bæjarstjórnarfundar á morgun er sala á íbúðum á Hlíf 1 sett á dagskrá að beiðni forseta bæjarstjórnar.

Dagskrárliðnum fylgir svofelld greinargerð:

„Tillaga fulltrúa framsóknar- og sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn er sú að leggja til að setja áform um sölu íbúða á Hlíf, mál sem tekið hefur verið fyrir á fundi bæjarráðs, á ís. Ljóst er að áformin hafa valdið nokkrum titringi og því mikilvægt að staldra við. Ekki hafi verið ætlunin að valda íbúum áhyggjum. Rétt er að minna á, eins og fram kom í bréfi til íbúa, að þrátt fyrir söluhugleiðingar sveitarfélagsins var ætlunin að tryggja áfram búsetu íbúa og halda þjónustu sveitarfélagsins óbreyttri í húsinu. Markmiðið með sölunni var að lækka skuldir svo að hægt sé að sækja fram og bæta þjónustu, m.a. við eldri borgara.“

Daníel Jakobsson, formaður bæjarráðs sagði í gærkvöldi í viðtali sem birtist á Ruv.is að frestunin yrði a.m.k. út árið enda lægi ekkert á að selja íbúðirnar. Þá segir Daníel ennfremur að sala eigna bæjarsjóðs sé ekki forsenda þess að reisa fótboltahús.

DEILA