Kvótinn endurreiknaður og 5 milljarðar í nýjan kvóta

Sjávarútvegsráðherra Kristján Þór Júlíusson leggur til í frumvarpi um atvinnu- og byggðakvóta, sem hann hefur lagt fyrir Alþingi að úthluta um 100 útgerðum 1.482 tonna þorskígildakvóta. Verðmæti kvótans er liðlega 5 milljarðar króna miðað við að hvert kg af varanlegum þorskkvóta kosti 3.500 kr eða 3,5 milljón króna hvert tonn.

Gert er  ráð fyrir að kvóti í rækju- og hörpudiski falli niður á móti.  Umræddir bátar hafa fengið síðustu 20 ár sérstakar aflaheimildir árlega sem bætur fyrir að ekki hefur verið heimilt vegna ástands stofnanna að veiða umrædda kvóta í skel og rækju.

Bótunum hefur verið úthlutað frá 1999/00 vegna rækjunnar og frá 2001/02 vegna hörpudisksins.

Vegna þessarrar nýju kvótaúthlutunar upp á 1.482 þorskígildistonn verður að endurreikna hlutdeilda allra skipa í aflamarkskerfinu og minnkar hlutdeild þeirra skipa sem ekki hafa kvóta í rækju- og hörpudisk. Verðmæti kvótans hjá þeim skipum sem verða fyrir skerðingu er jafnmikið og aukningin er hjá þeim sem fá hlut í hinnu nýju úthlutun.

Rökstuðningurinn fyrir því að umræddir sérleyfibátar fái nú aukinn kvóta er sá að þegar þorskkvótinn var skorinn niður upp úr 1980 urðu þeir fyrir viðbótarskerðingu á botnfiskkvóta sínum vegna sérleyfisveiðanna í rækju og á hörpudisk sem gerði þeim kleyft að bera aukinn niðurskurð. Eigi nú að fella niður umræddan sérleyfiskvóta verði þá að skila aftur viðbótarniðurskurðinum á botnfiskkvótanum.

Á móti því er bent á í umsögn Landssambands smábátaeigenda að með tímanum hafi eignarhald nokkurra þessa báta sem fengu bætur breyst. Bátar seldir og bætur með. Þannig séu aðrir að fá búhnykk en þeir sem tóku á sig skerðingu. Leggur Landssambands því til að afnám bóta taki eingöngu til framangreinda útgerða og þeirra aðila sem ekki hafa fullnýtt bætur með veiðum.