Bíddu því ég kem til þín

fyrri hluti

Geta óskir ræst? Já, allavega þegar maður er sex ára og á heima í ævintýraþorpinu Bíldudal. Reyndar hafði ég ekki óskað mér þess sem gjörðist. Líklega vegna þess að ég hafði bara ekki vit á því að það væri hægt að óska sér einhvers. En ef ég hefði vitað það, þegar ég var sex ára, að það væri hægt að óska sér þá hefði ég pottþétt óskað þess sem einmitt gjörðist í maí árið 1977. Svo vel rættist hin ósagða ósk að ég man allt nema það sem var sagt. Ég man stundina, staðinn og meira að segja lyktina sem ég fann í fangi óskarinnar.

Bíddu pabbi, hvurt ertu að fara? Hrópaði glókollurinn ég þegar faðir minn setti undir sig fararsnið. Sem var svo sem ekkert óalgengt því pabbi hefur ávallt verið á sífelldri ferð frá því ég man eftir mér. Hlaupandi í og úr vinnu, í og á leikæfingu, í og á Lions fund og ég veit ekki hvað hann hefur ekki hlaupið í enda starfaði hann um tíma sem leikfimikennari. Þetta var hinsvegar óvenjuleg tímasetning rétt fyrir hádegisfréttir á laugardegi. Þegar úttvarpið er hækkað í botn svo það heyrist langleðina yfir til Jóns granna, sem við köllum reyndar ávallt Jón Gróa enda er hann kenndur við Gróhóla og því aldrei kallaður annað en Jón Grói. Þó hann segi ekki margt þá er hann svo ánægður með föður minn sko útaf hinu daglega háttstyllta útvarpi í hádeginu, að hann hefur aldrei frjárfest í eigin útvarpstæki.

Glókollur hoppaðu í Hummel skóna ef þú ætlar að koma með mér. Ég er þegar orðinn of seinn, flugvélin fer alveg að lenda. Svo var pabbi rokinn og ég á eftir reyndar ekki í Hummel skóm því ég átti ekki svoleiðis. Enda fengust þeir bara í Kaupfélaginu og þar er alveg bannað að versla enda vinnur pabbi í Jónsbúðinni. Þar fást hins vegar Hadidas skór, sem má þó alls ekki rugla saman við Adidas nei þetta er ekki pikkvilla. Hadidas voru sko með einni rönd meira en nærri nafni sinn Adidas og auk þess miklu skrautlegri. Reyndar voru Hadidas skórnir miklu vinsælli í næsta þorpi, á Tálknafirði, því einn fræknasti fótboltamaður þeirra lék ávallt í Hadidas skóm. En hvað um það við erum á Bíldudal. Ég stekk nú í Hadidas skóna og greip vitanlega fótboltann með mér. Enda gæti það komið sér vel ef flugvélinni mundi seinka sem var þó ekki líklegt því við búum jú á Blíðudal og þar fellur sjaldan ef nokkurn tímann niður flug, einsog alþjóð veit.

Það munaði minnstu að pabbi gerði hið sama og klerkurinn sem gleymdi hjálpfúsu konu sinni er hafði opnað vegahliðið er þau óku millum fjarða svo í stað þess að lenda í því sama og frúin sú þá stökk ég út út um dyrina heima og inn um opnar dyr Jónsbúðarbifreiðarinnar. Pabbi heyrði ekki einu sinni þegar ég lokaði dyrinni enda var hann með útvarpsfréttirnar í botni og steig nú bifreiðina í botn. Í baksýnisspeglinum sá ég Jón granna Gróa grípa næsta reiðhjól og bruna á eftir okkur því ekki vildi hann missa af útvarpsfréttunum.

Þó ég muni ekki margt þá man ég vel eftir bifreiðinni sem við ókum í. Þetta var nefnilega rúgbrauð. Já, ljósgrænt Wolfshagen rúgbrauð. Með þremur sætum frammí og svo bara stór geymur fyrir aftan, enda bifreiðin notuð til vörufluttninga í búðinni. Víst var hægt að bruna á rúgbrauðinu það þekkti ég á eigin skinni. Einu sinni var ég í stökk keppni á Rally Grifter hjólinu mínu þar sem reynt var að stökkva yfir götu. Sem vitanlega engin gat og þegar ég tók stökkið brunaði sendiboði búðarinnar á mig á rúgbrauðinu svo ég og hjólið hentumst útí næsta garð. Ökumaðurinn, sem var reyndar kona, stökk út úr rúgbrauðinu þreyfaði á stuðarnanum, sá ekki á honum. Aggoti eru þetta sterkir bílar og brunaði svo sína leið. Ég get líka alveg staðfest gæði stuðarans því ekkert sá á mér né hjólinu.

Þegar maður er lítill glókollur þá var það í raun algjör forréttindi að fá að fara í bíltúr. Það gjörðist ekki oft. Annað hvort ár fórum við suður til ömmu og afa í Hamrahlíð, þess á milli fórum við í sund í Reykjafirði í okkar firði. Jú, svo man ég að við fórum stundum í tjaldútilegu á Dynjanda (afhverju ætli megi ekki tjalda þar í dag) og ekki má gleyma þegar við fórum alla leið í Selárdal í sama firði. Hvar blasti við okkur heilt Disney land, ævintýraveröld Listamannsins með barnshjartað. Ljónagosbrunnur, Leifur heppni og ekki má gleyma styttunum af stráknum sem er að gefa sækýrinni að borða. Og nú vorum við á leiðinni út á flugvöll. Ég sá reyndar ekki Jón granna Gróa lengur í baksýnisspeglinum á reiðhjólinu enda voru dánarfregnirnar byrjaðar.

Það er oft mjög gott að vita ekkert hvað er að fara að gjörast. Því var ég ekkert að spyrja pabba afhverju við værum að fara út á flugvöll. Jú, líklega að sækja einhvern. Kannski amma Bía væri að koma í heimsókn. En ég hef nú ávallt fyllt hinni arnfirsku meginreglu sem er: Það kemur í ljós, þegar það kemur í ljós.

Framhald í næstu viku.

Elfar Logi Hannesson

DEILA