Þrautaseiga, þol og hugvit

Ég er fæddur og uppalinn á Stað, Súgandafirði. Barnæskan á Suðureyri var yndisleg, ég get ekki ímyndað mér betri stað til að alast upp á. Við notuðum allt þorpið sem leikvöll, hvort sem það var í byssó, fallin spýta eða að reyna að svindla pening upp úr þorpsbúum með því að mála steina gulllitaða og selja þá sem alvöru gull. Svo varð ég eldri, byrjaði að vinna í fiski og hlusta á karlana tala um pólitík. Það var alltaf neikvætt “Hvað eru þessi börn inn á Alþingi eiginlega að hugsa?” þá byrjaði ég að taka eftir því að það var ákveðið vonleysi yfir fullorðna fólkinu. Þegar bankahrunið kom og fréttirnar sögðu “Nú er komin kreppa” þá heyri ég “Kreppan var löngu komin vestur, enda erum við alltaf á undan í tískunni”

Ég bjó við þann veruleika að bærinn sem ég ólst upp í og elskaði gæti verið farinn í eyði þegar ég yrði fullorðinn. Þetta varð ekki raunin. Þrautaseiga, þol og hugvit varð til þess að núna er bjart yfir stórum hluta Vestfjarða, það er ennþá kvartað yfir börnunum á Alþingi en  aðallega um að þau ættu að færa sig frá. Þessu blómaskeiði er samt ekki deilt jafnt meðal hreppana á Vestfjörðum. Sem dæmi má þar nefna Árneshrepp sem að heyjar baráttu á ögurstundu, ríkisvaldið sem og aðrir Vestfirðinga þurfa að styðja við heimafólk hreppsins. Á þessum björtu tímum er skuggi, hvað ef þetta fer í sama horf? Hvað ef þetta fer eins og kvótinn? Hvað ef börnin á Alþingi klúðra öllu aftur?

Sumir telja lausnina við þessu er að senda inn sinn fulltrúa, einhvern sem getur siðað þessi börn. Aftur og aftur er sent efnilegt fólk inn á Alþingi sem á að redda hlutunum, sem gengur oftast hægt á meðan fólk lærir hvernig Alþingi virkar og það virðist ekki vera hægt að vera lengi inn á Alþingi og halda tengingu við daglegt líf fólks. Hérna er ég búinn að skrifa tvær málsgreinar um Vestfirði en ég er í framboði fyrir allt norðvesturkjördæmi. Það er allt annar raunveruleiki fyrir fólk á Akranesi og fólk á Suðureyri. Ég get lagt mig fram í að skilja þann raunveruleika og mun gera það en ég mun aldrei skilja hann að fullu. Hver er ég að ákveða hvernig samfélag er byggt á Akranesi.

Það sem ég vil gera er þetta berjast fyrir valddreifingu, frá ráðherrum til Alþingis, frá Alþingi til sveitafélaga og frá sveitafélögum til íbúa. Með þessu valdi myndi fylgja fjármagn og ábyrgð. Við eigum að geta haft áhrif á þau málefni sem snerta okkur, ekki bara á fjögurra ára fresti. Hver bær myndi skipuleggja sitt samfélag, bæjarstjórn gæti gert mistök, tekið slæmar ákvarðanir og látið frændhygli ráða för en það eru nákvæmlega sömu áhætturnar og í núverandi kerfi. Er það verra að það sé smákóngur á Tálknafirði í staðin fyrir inni í ráðuneyti? Það væri svo fyrir hvert sveitafélag fyrir sig að uppræta spillingu, stunda vönduð vinnubrögð og dreifa valdinu en frekar í gegnum íbúa lýðræði ef það hentar þeim.

Ég laðaðist að hugsýn Pírata. Þau eru frumkvöðlar í sinni sýn að valddreifingu. Valddreifing er svo mikilvæg. Þá þegar karlarnir fussa og sveia yfir heimskulegum ákvörðunum þá geta þeir mætt á bæjarstjórnarfund og spurt. Af hverju er þetta svona? Kannski mun þeim ekki líka við svarið en beint samband við ákvörðunar töku lætur flest fólk taka þá ákvörðun meira í sátt jafnvel þótt að þau hefðu valið aðra leið. Svo tel ég líka að ef þetta er gert rétt, með fræðslu fyrir sveitastjórnar fulltrúa, fagleg vinnubrögð, opið bókhald og gagnsæja stjórnsýslu. Þá mun þetta leiða til betri ákvarðana og farsællar framtíðar.

Pétur Óli Þorvaldsson
Frambjóðendi í pröfkjöri Pírata fyrir norðvesturkjördæmi
Stað, Súgandafirði