Teitur Björn: sækist eftir þingsæti

Teitur Björn Einarsson, varaþingmaður frá Flateyri hefur tilkynnt að hann hyggist gefa kost á sér á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir næstu Alþingiskosningar og stefnir þar á þingsæti.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk þrjá þingmenn kjörna í kosningunum 2016 en tvo þingmenn í síðustu kosningum 2017. Teitur Björn skipaði þriðja sætið á listanum í báðum kosningunum.

Þingmenn Sjalfstæðisflokksins eru Haraldur Benediktsson og Þórdís Kolbrún Gylfadóttir.

Í tilkynningu frá Teiti Birni segir:

Ég hef verið svo lánsamur að vinna með fjölda fólks um allt kjördæmið að góðum málum og fagnað með því ýmsum merkum áföngum. En róðurinn hefur líka víða verið þungur.“

Þá segir hann um verkefnin framundan :

„Meginverkefnið framundan verður að svara spurningunni hvernig við aukum lífsgæði og búum til meiri verðmæti þannig hægt sé að treysta afkomu fólks og fjölga atvinnutækifærum í byggðum landsins. Tækifærin eru til staðar. Leggja verður mun meiri áherslu á sjálfbæra auðlindanýtingu til sjávar og sveita, nýsköpun í matvælaframleiðslu og iðnaði, aukna samkeppnishæfni með hófstilltari álögum, minni ríkisafskiptum og skilvirkara regluverki sem og kröftugri fjárfestingum í samfélagslegum innviðum. Nærtækt er að líta til hvernig ótíð og náttúrhamfarir síðustu misserin hafa dregið fram með augljósum hætti þörfina á mun betri og skjótvirkari þjónustu opinberra aðila heima í héraði nær fólki. Þá er ljóst að uppbygging velferðarkerfisins er hvergi nærri lokið í hinum dreifðari byggðum.
Fáu er hægt að kippa í liðinn á einni nóttu í kerfum ríkisins. En með þrautseigju finnast lausnir og með samhentu átaki næst árangur. Þennan kraft, sem þarf til breytinga, er að finna í Sjálfstæðisflokknum um allt kjördæmið og ég veit að á grundvelli Sjálfstæðisstefnunnar verður hægt að stíga stór skref til framfara og bæta lífskjör í okkar samfélagi.“