Kirkjan lætur í sér heyra þegar lífshættir jarðarbúa stefna jörðinni í átt að eyðileggingu

Í nýárspredikun biskups Íslands, sr Agnesar Sigurðardóttir sem flutt var í Dómkirkjunni í morgun sagði hún að kirkjan léti sig varða fátækt og óréttlæti eða ágenga lífshætti.

„Þess vegna lætur kirkjan í sér heyra þegar lífshættir jarðarbúa stefna jörðinni í átt að eyðileggingu, þegar fólk flýr heimkynni sín vegna óréttlætis af ýmsum toga, vegna fátæktar og hungurs eða hvers annars sem ekki styður við lífið og lánið.“

Þá sagði hún að kirkjan léti einnig í sér heyra gagnvart óréttlátum stjórnvöldum og talaði máli þeirra hallað væri á en þátttaka kirkjunna þyrfti ætíð að vera  á hinum kristnu trúarlegu forsendum.

„Jesús sjálfur lét í sér heyra þegar honum mislíkaði framganga yfirvalda, þegar hann horfði upp á óréttlæti eða skort á kærleika.  Hann braut viðteknar venjur eins og þegar hann læknaði á hvíldardegi.  Hann benti á samhjálp þegar hann talaði um miskunnarverkin og endaði ræðu sína á að „allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér“.  Hann talaði máli barna og kvenna sem höfðu ekki jafna stöðu og karlar í samfélaginu.  Hann sagðist vera vegurinn, sannleikurinn og lífið og hann sagðist eftirláta okkur sinn frið.  Allt þetta og miklu meira hét hann og kirkju hans ber skylda til að komda þessu erindi áfram til komandi kynslóða. Þetta eru meðal hinna sístæðu verkefna kirkjunnar, á öllum tímum. Vandasamt getur hins vegar verið að taka þátt í þjóðfélagsumræðunni, á hinum kristnu, trúarlegu forsendum. Ef kirkja og kristni verða pólaríseringu að bráð, þar sem boðskapnum er plantað í skotgrafir, er hætta á ferðum. Meðhöndlun hins kristna boðskapar þarf ætíð að vera í bæn og af auðmýkt, með hjartað heitt og opinn huga. Slíkt kærleiksorð á ætíð heima í umræðunni, en aldrei í skotgröfunum.“

Biskup Íslands vék að trúnni.

„Trú er ekki prívat.  Hún er persónuleg.  Trúin er ekki einkamál því hún hefur ekki aðeins áhrif á líf hins trúaða einstaklings heldur þeirra sem viðkomandi umgengst.  Trú er lífsskoðun og þess vegna deilum við trú okkar með öðrum í samtali og sýnum hana í og með verkum okkar.  Andleg leit er mikil í nútímanum og leitast margar sóknarkirkjur við að svara þeirri þörf þar sem aldagamlar hefðir og nútíma möguleikar eru viðhöfð.“