Karfan af stað: Vestri vann í karlaflokki

Linda Marín í leik með KFÍ 2015.

Íslandsmótið í körfuknattleik hófst að nýju um helgina eftir langt covid hlé. Bæði karla- og kvennalið Vestra voru í eldlínunni og áttu heimaleik.

Karlalið Vestra lék á föstudagskvöldið við lið Selfoss í 1. deildinni og höfðu sigur 82:75. Vestri tók strax forystuna og leiddi með 12 stigum í hálfleik og jók forskotið í 3. leikhluta í 16 stig. Í lokaleikhlutanum náðu Selfyssingar að minnka muninn í 7 stig en sigurinn var aldrei í hættu.

Ken-Jah B. var stigahæstur Vestramanna með 31 stig og Nemanja Knezevic gerði 21 stig.

Kvennalið Vestra lék við Grindavík í 1. deild kvenna og fór leikar svo að Grindvíkingar unnu 20 stiga sigur 71:91. Úrslitin réðust í 2. leikhluta sem Grindvíkingar unnu með 19 stigum.

Olivia Janelle C. skoraði 26 stig fyrir Vestra og Sara Emily N og Linda Marín Kristjánsdóttir gerðu 12 stig hvor. Alls dreifðist stigaskor Vestra á 9 leikmenn.

Tveimur umferðum er lokið í Íslandsmótinu og hefur karlaliðið unnið einn og tapað einum en kvennaliðið hefur tapað báðum sínum leikjum

DEILA