Jöfnunarsjóður sveitarfélaga: lítil þörf á fjárhagsaðstoð til Vestfjarða

Á gamlársdag var tilkynnt um 720 milljóna króna viðbótarúthlutun úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til sveitarfélaga vegna aukins kostnaður vegna fjárhagsaðstoðar til einstaklinga og fjölskyldna miðað við árið 2019. Var samið um þessa viðbótargreiðslu í september síðastliðnum. Ríkissjóður veitir Jöfnunarsjóðnum aukaframlag sem sjóðurinn úthlutar svo til sveitarfélaganna.

Óskað var eftir gögnum frá sveitarfélögum um útgjöld vegna fjárhagsaðstoðar fyrir árin 2019 og 2020. Svör bárust frá 33 sveitarfélögum þar sem kostnaður vegna fjárhagsaðstoðar hefur aukist milli ára. Tilefnið er aukið stóraukið atvinnuleysi vegna kórónuveirufaraldursins en það hefur valdið mörgum fjölskyldum búsifjum og leitt til aukinnar þarfar fyrir fjárhagaðstoð frá sveitarfélaginu.

Ástandið hefur greinilega ekki verið sveitarfélögum á Vestfjörðum ofviða svo neinu nemur. Það eru aðeins tvö sveitarfélag sem fá viðbótarúthlutun. Ísafjarðarbær fékk 7,1 milljón króna og Súðavíkurhreppur 0,9 m.kr. Samtals eru viðbótarfjárveitingin til Vestfjarða aðeins 8 m.kr.

Reykjavík fær hæstu fjárveitinguna

Nærri 83% af 720 milljóna króna viðbótarfjármagninu rennur til sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu eða nærri 600 mkr. Reykjavíkurborg fær langmest eða 465 m.kr.  Kópavogur 47 mkr. og Hafnarfjarðarkaupstaður 41 kr. Reykjanesbær fékk 44 milljónir króna í viðbótarúthlutun og Árborg 20 mkr.

Það hefur lengi verið eitt af grunnverkefnum sveitarfélaga að veita einstaklingum og fjölskyldum fjárhagaðstoð. Ríkisstjórnin vinnur að því að sameina fámenn sveitarfélög til þess að þau geti enn frekar rækt þetta mikilvæga hlutverk.