Vesturbyggð: gefa ekki upp afstöðu

Fulltrúar Vesturbyggðar vilja ekki gefa nákvæmlega upp hvernig þeir greiddu atkvæði um tillögu á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga um að falla frá þvingaðri sameiningu sveitarfélaga.

Vesturbyggð á rétt á tveimur fulltrúum á landsþinginu og voru það bæjarfulltrúarnir  Friðbjörg Matthíasdóttir og Þórkatla Soffía Ólafsdóttir sem voru með atkvæðisréttinn. Þær segja í sameiginlegu svari til Bæjarins besta að þær hafi ekki stutt tillöguna en svara því ekki hvort þær hafi setið hjá eða greitt atkvæði gegn tillögunni.  Þær segjast hins vegar hafa skilning á því að tillagan hafi verið lögð fram og gera ráð fyrir að tekið verði tillit til þess á Alþingi.

Samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga eru atkvæðagreiðslur á landsþingi sambandsins leynilegar.

Fulltrúi Tálknafjarðarhrepps Bjarnveig Guðbrandsdóttir, oddviti,  var einn flutningsmanna tillögunnar og staðfestir að hún greiddi atkvæði með tillögunni.

Svar Friðbjargar og Þórkötlu :

„Engin stefnubreyting frá því sem Vesturbyggð hefur áður upplýst um varðandi stefnumótandi áætlun í sveitarstjórnarmálum. Við studdum þvi ekki tillöguna eins og hún lá fyrir landsþinginu í gær. Við höfum þó mikinn skilning á því að tillagan hafi verið lögð fram enda er það mikilvægt að rödd allra sveitarfélaga heyrist og við gerum ráð fyrir að tekið verði tillit til þess við meðferð þingsins á málinu. Mikilvægt er að leitað verði leiða til sátta þannig að sveitarfélögin nái að vinna saman að stóra markmiðinu sem er að styrkja tekjustofna sveitarfélaga og auka fjárhagslega getu þeirra til að standa undir þjónustu við íbúana. Lágmarksíbúatala er í sjálfu sér bara ein leið að markmiðinu, en skynsamleg að okkar mati til að koma þessum málum á hreyfingu, burtséð frá því hver hin endanlega ásættanlega tala er. Leiðir til að virkja íbúana enn frekar eru sífellt í þróun og skapa ný tækifæri í stærri einingum líkt og nýlegar sameiningar á Austurlandi sýna.“

 

 

DEILA