Á tímum atvinnuleysis og samdráttar er mikilvægt að hvetja fyrirtæki til framþróunar og arðbærra fjárfestinga. Samfélagið þarf á virkri atvinnuþróun, fjölgun starfa og verðmætasköpun að halda. Aðstæður kalla á að stjórnvöld fari í aðgerðir sem styrkja atvinnulífið í bráð og lengd. Auk hvata og stuðnings við nýsköpun þarf aðgerðir til að halda atvinnulífinu gangandi, koma í veg fyrir stöðnun, skapa nýjar tekjur og störf hratt.
Þingmenn Framsóknarflokksins hafa þess vegna lagt fram tillögu um ríkisábyrgð á viðspyrnulán til atvinnuþróunar. Í tillögunni er lögð áhersla á að veita allt á 200 milljón kr. ábyrgð á lán til fjölbreyttra atvinnuþróunarverkefna hjá ólíkum aðilum. Ríkisábyrgð yrði veitt fyrir allt að 70% lánsfjárhæðar samkvæmt nánari útfærslu. Til að aðgerðin hafi marktæk áhrif við að örva útlán til atvinnusköpunar þarf heildarupphæð lána sem njóta ríkisábyrgðar nema að lágmarki 10–15 milljörðum króna.
Betur má ef duga skal
Ríkisstjórnin hefur nú þegar bætt verulega í fjárveitingar til nýsköpunar og unnið er að endurskipulagningu nýsköpunarumhverfisins. Stjórnvöld hafa þegar farið í ýmsar mikilvægar aðgerðir til að viðhalda fyrirtækjum og verkefnum, almennar aðgerðir á borð frestun gjalddaga, stuðningslán með ríkisábyrgð, tekjufallsstyrki og viðspyrnustyrki og stóraukið framlög til nýsköpunar. Þrátt fyrir ofangreindar aðgerðir er þörf á almennari hvötum til tekju- og atvinnusköpunar sem komast hratt til framkvæmda.
Tillögunni er ætlað að bregðast við vísbendingum um að niðursveiflan í hagkerfinu magnist vegna þess að fyrirtæki hafi ekki aðgang að lánsfjármagni fyrir góð og arðbær verkefni. Með aðgerð af þessu tagi gætu stjórnvöld gefið skýr skilaboð um að framtíðin á Íslandi sé björt og stigið nauðsynlegt skref til að örva atvinnulífið, draga úr atvinnuleysi og glæða hagkerfið.
Atvinnuþróun skapar verðmæti
Hvatinn sem felst í ríkisábyrgðum ætti að geta nýst fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum þó verkefnin sem ráðist verður í verði flest lítil og meðalstór. Þetta eru verkefni sem lánveitendur teldu vænlegan fjárfestingarkost í hefðbundnu árferði en gjalda nú fyrir óvissuna. Íslenskt samfélag hefur ekki efni á að bíða eftir að faraldurinn líði hjá heldur þarf framþróun og nýting tækifæra að halda áfram. Aðgerðinni er ekki ætlað að raska samkeppni heldur styðja við þróun og uppbyggingu í sem flestum greinum sem geta skapað verðmæti og gjaldeyristekjur fyrir samfélagið. Má þar nefna iðnað, skapandi greinar, þróun umhverfislausna, landbúnað, fiskeldi, kvikmyndagerð, sjávarútveg og afleiddan tæknigeira, heilbrigðisþjónustu og lyfjaiðnað, auðlindanýtingu o.fl.
Þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram fleiri mál til eflingar atvinnulífsins, s.s. endurskoðun á lagaumhverfi fyrir smávirkjanir, breytingu á búvörulögum til að heimila samstarf afurðastöðva í kjötiðnaði, aðgerðaáætlun um nýtingu þörunga, tillögu um mótun efnahagslega hvata til að efla ræktun orkujurta á Íslandi og tillögu um mótun klasastefnu sem nú er komin í vinnslu. Eitt er víst að Íslendingar hafa dugnað, þekkingu og þor en við þurfum að tryggja fjármagn til atvinnuuppbyggingar.
Áfram veginn.
Halla Signý Kristjánsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir
Þingmenn Framsóknarflokksins