Skipulagsstofnun hefur birt álit sitt á um um mat á umhverfisáhrifum fyrir framleiðslu á 6.800 tonnum af laxi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi á vegum Háafells ehf. Stofnunin segir að með vísan í áhættumat erfðablöndunar telji hún að áhrif fyrirhugaðs laxeldis Háafells í Ísafjarðardjúpi á laxastofna í þeim ám sem áhættumatið nær til verði óveruleg.
Hins vegar er því bætt við að áhættumatið nái ekki til áa sem geyma litla laxastofna, „en slíkar ár eru almennt taldar viðkvæmari fyrir erfðablöndun. Rannsóknir benda til að erfðaefni eldislax hafi blandast villtum laxi á Vestfjörðum. Þegar horft er til þess að áhrif slíkrar erfðablöndunar geta verið óafturkræf telur Skipulagsstofnun að fyrirhugað eldi Háafells geti haft nokkuð eða talsvert neikvæð áhrif á villta laxastofna á Vestfjörðum.“
Að öðru leyti telur Skipulagsstofnun helstu neikvæðu áhrif framkvæmdarinnar felast í aukinni hættu á að laxalús berist í villta laxfiska, áhrifum á botndýralíf og eðlisþætti sjávar. Jafnframt getur notkun aflúsunarlyfja haft neikvæð áhrif á rækju. Þá telur Skipulagsstofnun að fyrirhugað laxeldi Háafells komi til með að hafa neikvæð samlegðaráhrif með öðru fyrirhuguðu eldi í Djúpinu á þá þætti sem nefndir voru hér á undan. Komi til leyfisveitinga telur Skipulagsstofnun að setja þurfi skilyrði í starfs- og rekstrarleyfi sem eru til þess fallin að draga úr líkum á neikvæðum áhrifum á ofangreinda þætti.
Skipulagsstofnun telur að setja eigi skilyrði í rekstrarleyfi um:
Notkun ljósastýringar.
Að ekki verði sett út seiði undir 150 g að þyngd og að stærð netmöskva verði aðlöguð að
stærð seiðanna svo ekki sé möguleiki á að þau sleppi.
Fyrirkomulag vöktunar á eldisbúnaði með tilliti til hættu á slysasleppingum og viðbrögð
rekstraraðila við stroki.
Að ástand netpoka verði kannað neðansjávar strax eftir ofsaveður.
Að rekstraraðili skili reglulega inn þeim gögnum sem Hafrannsóknastofnun þarf að fá frá
fiskeldisfyrirtækjum til að bæta nákvæmni áhættumats erfðablöndunar.