Ísafjörður: Edinborgarhúsið fær styrk

Mennta- og Menningarmálaráðuneytið hefur veitt Edinborgarhúsinu á Ísafirði styrk að upphæð 4,5 milljónir króna til að styðja við erfiðan rekstur. Tilkynning um styrkinn kom nú í desember í bréfi til Ísafjarðarbæjar. Áttatíu prósent styrkfjárhæðarinnar var greidd strax og 20% verða greidd þegar  mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur borist greinargerð um endurskipulagningu fjárhags Edinborgarhússins og fjárhagsuppgjör vegna þess.  Jafnframt skuli stjórn Edinborgarhússins leggja fram tillögur að notkun hússins til framtíðar.

Í framhaldi af ákvörðun ráðuneytisins samþykkti bæjaráð Ísafjarðarbæjarað greiða styrk úr bæjarsjóði  að fjárhæð kr. 4.000.000 sem mótframlag við styrk ríkisins til styrktar reksturs Edinborgarhússins, með sömu skilyrðum og styrkur ríkisins.

Upphaf málsins er að í maí 2019 sendi stjórn Edinborgarhússins ehf. bréf til bæjarráðs til upplýsinga um að tekin hafi verið sú ákvörðun að skera niður í rekstri hússins. Stærsti einstaki þátturinn í því var uppsögn rekstrar- og viðburðastjóra. Þá væri leitað leiða til að skapa öruggan rekstrargrundvöll fyrir húsið til lengri tíma litið svo það megi þjóna tilgangi sínum, eins og til var stofnað.

Fyrir réttu ári óskaði Ísafjarðarbær eftir þríhliða viðræðum við  Menntamálaráðuneytisins og Menningarmiðstöðvarinnar Edinborgarhússins um rekstur og starfsemi menningarmiðstöðvarinnar.

Gert er ráð fyrir að tillögur um notkun hússins til framtíðar liggi fyrir fljótlega á nýju ári.