Ríkið: Reykjafjörður og Þaralátursfjörður verði þjóðlenda

Fjármálaráðherra gerir þá kröfu fyrir Óbyggðanefnd að bæði Reykjafjörður og Þaralátursfjörður verði þjóðlenda en ekki einkaeign. Nær krafa ríkisins til allrar landareigna í báðum fjörðum alveg til sjávar. Það er frábrugðið kröfum ríkisins almennt í Ísafjarðarsýslum, en þar er einkum krafist þess að land yfir tiltekinni hæðarlínu sé þjóðlenda og viðkenndur eiganrréttur landeigenda þar fyrir neðan.

Í Reykjafirði eru tvær jarðir Sæból og Reykjafjörður en Þaralátursfjörður hefur verið óskipt ein jörð. Reykjafjörður var lengst byggt af þessum jörðum eða til 1964. Landeigendur hafa nytjað jörðina síðan og þar er rekin myndarleg ferðaþjónusta að sumarlagi. Í Reykjafirði er jarðhiti og sundlaug og gerð hefur verið bryggja og flugbraut. Þrjú íbúðahús standa á jörðinni.

Í greinargerð ríkisins segir að lýst sé kröfum í jarðirnar Þaralátursfjörð, Reykjafjörð og Sæból í heild þrátt fyrir að heimildir liggi fyrir um að um sé að ræða jarðir.

Landamerkjabréf er ekki til af Þaralátursfirði en henni er lýst í landamerkjabréfum Furufjarðar og Reykjafjarðar. Erfitt er, þrátt fyrir það, að ráða merki jarðarinnar. Henni er ekki lýst í sóknarlýsingu. Þá virðist vera að jörðin hafi ekki verið lengi í byggð og saga búskapar á henni í nútíma stutt. Sveitarfélagið virðist selja hana í byrjun 20. aldar.

Óskýr landamerkjabréf fyrir Reykjafjörð

Landamerkjabréf eru til fyrir Reykjafjörð og Sæból en merkin eru þrátt fyrir það óskýr og ekki með góðu móti hægt að miða við þekkta punkta, hæðarlínur, gróðurfar eða landslag til að miða þau við.

Landamerkjabréf Sæbóls er dags. 8. janúar 1892, þar sem merkjum er svo lýst:
Milli Reykjarfjarðar og Sæbóls skilur á, sem rennur frá fjalli til fjöru. Að austnverðu skilur
Sæbóls og Skjaldbjarnarvíkurland klettur, sem er nefndur Biskup, og stendur undir
Geirólfsgnúp.

Í kröfulýsingunni kemur fram að vonast er til að merkin skýrist við frekari skoðun nefndarinnar og athugasemdir aðila. „Í ljósi þess að erfitt er að auka við þjóðlendukröfur en einfalt að draga úr þeim var í því tilviki sem hér um ræðir, þar sem óvissan er svo mikil sem raun ber vitni, talið heppilegra að gera kröfu með þessum hætti og draga frekar í land á seinni stigum.“

Einn fulltrúi landeiganda sem Bæjarins besta ræddi við í gær sagði að hann teldi landamerkin skýr. Reykjafjörður og Sæból hafi verið sameinuð fyrir löngu og þess mætti geta að Reykjafjörður væri lögbýli, það eina á þessu svæði. Landamerkin væru sýslumörk austan megin og við Þaralátursfjörð vestan megin.

 

DEILA