MAKEit Vestfirðinga hófst á föstudaginn í Félagsheimili Bolungarvíkur. Þátttakendur sem komu frá Háskólasetri Vestfjarða, alls 25 manns, voru mætt til að etja kappi um bestu hugmyndina í að gera verðmæta vöru úr hliðaafurð frá laxavinnslu. Það er laxavinnslan Eðalfiskur í Borgarfirði sem útvegar hráefnið, skaf af beinagarði, sem er best kjötið af laxinum.
Fyrstu skref í verðmætasköpun
Byrjað var á að útlista fyrir hópnum leikreglur MAKEit og setja þá inn í aðferðafræði keppninnar, en þau munu kynna niðurstöður sínar fyrir dómnefnd á sunnudaginn kemur. Vegleg veðlaun eru fyrir sigurlið keppninnar; út að borða á veitingastaðnum Húsið á Ísafirði og eins árs aðgangur að Djúpinu í Bolungarvík þar sem hægt er að stunda rannsóknar og þróunarvinnu undir handleiðslu sérfræðinga. Vestfjarðastofa býður sigurliðinu upp á aðstoð við að sækja um þróunarstyrk í „Báru“, samkeppnissjóð á vegum Matvælasjóðs. Hugmyndin með því er að góð hugmynd sigurvegara að verðmætri vöru verði tekin lengra en hægt er að sækja um allt að þriggja milljón króna styrk í sex mánaða verkefni til að útbúa viðskiptaáætlun, hagkvæmnisathugun, tilraunir með hráefni, prófun aðferða eða vinnu við útfærslu hugmynda. Arctic Fish mun vera hópnum til halds og trausts ef styrkur fæst til að þróa góða hugmynd lengra og Matís verður ekki langt undan til að styðja við frumkvöðla í matvælavinnslu
Keppnin
Keppt er í fimm, fimm manna hópum undir leiðsögn sérfræðinga sem verkefnið hefur fengið til liðs við sig. Einn þeirra var mættur á staðinn í dag, Sigurður Pétursson frá Arctic Fish, til að hvetja þátttakendur og efla þá til leiks sem fram undan er.
Líka skemmtun
En þetta er ekki bara vinna og skemmtilegheitin ekki langt undan. Hugmyndin var að bjóða þátttakendum í grillveislu í Ósvör í gærkvöld, þar sem lax frá Arctic Fish yrði grillaður, en með snjó niður í miðjar hlíðar og norðaustan stinningskalda var ákveðið að flýja með veisluna inn í Félagsheimilið. Ásamt laxinum verður boðið upp á kartöflur úr Bolungarvík og grænmeti ræktað í Hnífsdal. Boðið verður upp á heimabjór Djúpverja frá Dokkunni til að renna kræsingunum niður.
Aðgát í Covid
Þátttakendur eru partur af tveimur hópum stúdenta frá Háskólasetri sem þegar hafa mikið samneyti sín á milli í kennslustund, og því engin sérstök áhætta hvað varðar Covid 19 vegna MAKEit. Gert var ráð fyrir því þegar skipt var upp í hópa.