Vestfirðir: 3,2% atvinnuleysi í júlí

Alls voru 124 atvinnulausir á Vestfjörðum í lok júlí og 18 til viðbótar voru í skertu starfshlutfalli. Samtals reiknast þetta sem 3,2% atvinnuleysi. Lækkaði atvinnuleysið úr 4,7% í júnímánuði. Hæst reis atvinnuleysið í aprílmánuði þegar það varð 11,7%. Þá voru 664 einstaklingar á skránni en núna voru þeir 142 eins og áður segir.

Spáð er að atvinnuleysið minnki enn í ágúst og verði 3,0%.

Atvinnuleysið var 7,9% á landsvísu í júlí.

Mest var atvinnuleysið í Kaldrananeshreppi og Reykhólahreppi nærri 5% í hvori sveitarfélagi. Lægst var atvinnuleysið í júlí í Súðavík og var það aðeins 1,6%.

Greint eftir sveitarfélögum eru 79 af þeim 142 sem teljast atvinnulausir á Vestfjörðum búsettir í Ísafjarðarbæ, 24 í Vesturbyggð og 20 í Bolungavík.

Greint eftir aldri eru 78 af 142 innan við fertugt, 92 eru íslenskir og 37 er pólskir.

Langflestir eða 55 eru skráðir við fiskveiðar/vinnslu/eldi, 15 við iðnað og 13 við verslun og vöruflutninga.

Ofangreindar upplýsingar koma fram í fréttabréfi Vinnumálastofnunar á Vestfjörðum.

DEILA