Umsögn Stjórnarskrárfélagsins um stjórnarskrárbreytingar

Stjórnarskrárfélagið hefur í fyrri umsögnum um tillögur að stjórnarskrárbreytingum, sem komið hafa frá formönnum stjórnmálaflokkanna á Alþingi undanfarið, hvatt til þess að lýðræðisleg vinnubrögð yrðu tekin upp og unnið að lögfestingu nýrrar og endurskoðaðrar stjórnarskrár í samræmi við úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu sem Alþingi boðaði til 20. október 2012. Þau frumvarpsdrög sem hér eru til umsagnar eru enn einn vitnisburðurinn um að formenn flokkanna hafa ekki látið sér segjast og ætla ekki að virða vilja kjósenda og úrslit kosninganna. Þvert á móti er áfram unnið eins vilji stjórnmálaflokkanna eigi að ráða en ekki lýðræðislegur vilji fólksins. Félagið sér því ekki ástæðu til að fjalla efnislega um þessi drög heldur ítrekar að fullveldið er hjá þjóðinni og það er þjóðin sem er stjórnarskrárgjafinn.

 

Stjórnarskrárfélagið mótmælir harðlega vinnubrögðum formanna stjórnmálaflokkanna. Höfuðtilgangurinn virðist sá að réttlæta og fá fólk til að sætta sig við hreina og klára valdníðslu; að stjórnmálaflokkar á Alþingi geti gert breytingar á stjórnarskrá eins og þeim sýnist þrátt fyrir að yfir 2/3 hlutar kjósenda hafi þegar samþykkt efnislegan grundvöll nýrrar stjórnarskrár í þjóðaratkvæðagreiðslu sem boðað var til í nafni þingsins. Landsmönnum virðist ætlað að gleyma að allt það sem stjórnarskrárnefnd formanna stjórnmálaflokkanna er að fást við hefur þegar verið rætt og afgreitt í löngu lýðræðislegu ferli utan og innan Alþingis.

Þessi framganga er óréttlætanleg út frá siðferðilegum og lýðræðislegum sjónarmiðum og á ekki að eiga sér stað í nokkru lýðræðisríki.

 

Alþingi er ekki leikfang stjórnmálaflokkanna. Íslendingar eiga Alþingi. Öll þjóðin. Þegar boðað er til þjóðaratkvæðagreiðslu í nafni Alþingis ber þeim sem þar sitja siðferðileg og pólitísk skylda til að lúta niðurstöðunni. Bregðist þingmenn þeirri skyldu er vegið bæði að þinginu og þjóðinni. Enda hefur það aldrei gerst að Alþingi virði ekki úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

Stjórnarskrárfélagið krefst þess að Alþingi taki upp þráðinn þar sem frá var horfið í mars 2013 og vinni með það sem kjósendur samþykktu af heilindum og trúnaði við lýðræðisleg grundvallargildi. Enginn hefur beðið um stjórnarskrá stjórnmálaflokkanna og núverandi verklag er hneyksli.

 

Ragnar Aðal­steins­son lög­maður hefur útli­stað hvernig tilhlýðilegt er að Alþingi vinni úr því sem kjósendur samþykktu:

 

„Ákvæði Stjórn­laga­ráðs var samið af óháðum og sjálf­stæðum full­trú­um, sem þjóðin hafði til þess kjörið, og Alþingi svo skipað eftir ógild­ingu Hæsta­réttar á grund­velli forms­atriða. Ráðið vann verk­efnið fyrir opnum tjöldum og tók sjón­ar­miðum almenn­ings opnum örmum og gaum­gæfði þau. Ráðs­menn komust að sam­eig­in­legum nið­ur­stöðum um efni og orða­lag nýrrar stjórn­ar­skrár fyrir land­ið. Stjórn­ar­skrár­frum­varpið var þannig samið á lýð­ræð­is­legan hátt. Þeim, sem hafa hug á að end­ur­semja og breyta til­lögum ráðs­ins, er vandi á hönd­um, því færa má að því rök að þeir, sem það reyna, verði að færa á það ótví­ræðar sönnur að breyt­ing­ar­til­lögur þeirra séu betur til þess fallnar að treysta almanna­hag en til­lögur ráðs­ins.“

Hjörtur Hjartarson,

stjórnarmaður í Stjórnarskrárfélaginu

DEILA