Ísafjörður: tók rúma 8 mánuði að afgreiða umsögn um leyfi fyrir gististað

Bæjarráð afgreiddi í gær  erindi frá Sýslumannsembættinu á Vestfjörðum til Ísafjarðarbæjar dagsett 7. nóvember 2019 þar sem óskað er umsagnar sveitarfélagsins um umsókn Elíasar Guðmundssonar, f.h. Fisherman, vegna rekstrarleyfis fyrir gististað í flokki IV að Aðalgötu 14-16, Suðureyri. Um er að ræða framlengingu á þegar fengnu leyfi.

Umsögn bæjarins er sú að ekki er gerð athugasemd við útgáfu rekstrarleyfisins en tekið undir athugasemd Slökkviliðs Ísafjarðarbæjar um fjölda gesta í hvoru húsnæði um sig.

Athygli vekur að það hefur tekið Ísafjarðarbæ átta og hálfan mánuð að afgreiða umsögnina. Eftir að málið berst bænum er það sent til Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða og Slökkviliðs ísafjarðarbæjar til umsagnar.

Heilbrigðiseftirlitið svaraði 20. febrúar 2020 og Slökkviliðið  þann 25. febrúar. Síðan virðist ekkert gerast fyrr en umsögn skipulagsfulltrúa dags 7. júlí 2020 berst til bæjarráðs sem svo afgreiðir málið í gær þann 20. júlí 2020.

 

DEILA