Rúmlega þrjátíu þúsund manns höfðu sótt um hlutabætur samkvæmt yfirliti frá ASÍ sem dagsett er 9. apríl. Þar af eru 312 umsóknir frá Vestfjörðum. Það samsvarar 8% af starfandi á Vestfjörðum 2019. Er hlutfallið það næstlægsta á landinu. Lægst er það á Norðurlandi vestra 6%. Flestar umsóknir um hlutabætur eru af höfuðborgarvæðinu 20.161 sem er 16% af starfandi á síðasta ári á svæðinu. Hæst er hlutfallið hins vegar á Suðurnesjum 22% og umsóknirnar eru 3.338. Annars staðar eru hlutfallið 10 – 13% af starfandi 2019.
Kynjaskipting umsækjenda er nokkuð jöfn. 55% umsækjenda eru karlmenn en 45% konur. Til samanburðar voru karlar 53% starfandi landsmanna í fyrra en konur 47%, samkvæmt tölum frá Hagstofu.
Ríflega þrír af hverjum fjórum umsækjendum eru íslenskir ríkisborgarar, en um 14% eru Pólverjar og 10% borgarar annarra ríkja. Í fyrra voru um 80% starfandi fólks hérlendis Íslendingar en 20% útlendingar. Endurspegla umsóknir um hlutabætur því betur samsetningu vinnumarkaðarins en umsóknir um atvinnuleysisbætur síðasta árið, þar sem hlutfall Íslendinga meðal umsækjenda hefur verið 63%.
Sé litið til aldursskiptingar, eru umsóknir hlutfallslega flestar í aldurshópnum 30-39 ára. Alls eru 26% umsækjenda á þeim aldri, samanborið við 21,6% af starfandi fólki. Lægst er hlutfallið meðal fólks á aldrinum 60-69 ára, en 9% umsækjenda eru á þeim aldri samanborið við 11,7% af starfandi fólki.