Verndum villta laxinn

Ritstjórn BB hefur á undanförnum dögum fjallað nokkrum sinnum um starf Íslenska náttúruverndarsjóðsins – The Icelandic Wildlife Fund og þar hef ég, sem annar stofnandi sjóðsins, meðal annars komið við sögu. Þannig segir í frétt sem miðillinn birti að félag sem ég á hlut í sé leigutaki Langadals- og Hvannadalsár við Ísafjarðardjúp.

Mig langar að þakka BB fyrir þessa umfjöllun og fyrir tækifærið til að segja lesendum frá því hvernig stangveiðimenn hafa verið í fararbroddi þegar verndarstarfi fyrir villta íslenska laxinn.

Fyrst þó nokkur orð um félagið sem BB fjallaði um sem heitir Starir en starf þess snýst einmitt í grundvallaratriðum um sjálfbæra nýtingu á villtum laxi sem við höfum svo mikla ástríðu fyrir.

Starir er með nokkrar af þekktustu laxveiðiám Íslands í leigu frá bændum víða um land. Alls staðar er það velferð laxins sem er í forgangi. Verkin tala sínu máli. Síðasta haust tók Starir til dæmis við ánum Blöndu og Svartá og við gáfum strax út að þar yrðu teknir upp sömu hættir og í öðrum ám sem við erum með. Þannig verður frá og með komandi sumri eingöngu heimilt að veiða flugu á vatnasvæði Blöndu, allt annað agn verður bannað frá sjó og inn á heiðar, og algjör sleppiskylda verður á stórlaxi, aðeins má taka tvo laxa á hverja stöng og það verða að vera hængar undir 68 sentimetrum.

Við vitum að þessar breytingar munu stuðla að uppbyggingu villtu laxastofnanna því við tölum af reynslu.

 

Virðing fyrir villta laxinum

Starir hafa leigt Þverá og Kjarrá af bændum í Borgarfarfirði í tæp tíu ár.  Allan þann tíma hefur eingöngu verið veitt á flugu og verið skylda að sleppa stórlaxi. Áhrifin fara ekki á milli mála. Laxagengd hefur aukist og stórlöxum fjölgað. Um þetta má til dæmis lesa í skýrslu Hafrannsóknastofnunar um vöktun laxastofna í Þverá og Kjarrá í Borgarfirði, sem kom út 2018, eftir  Sigurð Má Einarsson og Ástu Kristínu Guðmundsdóttur. Sigurður hefur unnið að rannsóknum á svæðinu frá árinu 1989 og gjörþekkir því þar aðstæður.

Djúpstæð virðing fyrir villta laxinum og íslenskri náttúru er kjarninn í starfi Stara. Sjálfur ólst ég upp á árbakkanum frá því ég var nýbyrjaður að geta gengið og þekki því vel þau ómetanlegu verðmæti sem felast í óspilltu umhverfi og lífríki Íslands.

Við heyrum stundum að veiddur lax laskist eða jafnvel drepist eftir að honum er sleppt en rannsóknir segja okkur annað. Laxinn þolir þetta vel ef hann er handleikinn rétt.

Ekki eru mörg ár frá því öll lögleg veiðarfæri voru leyfð, fluga, maðkur og spúnn í flestum ám landsins. Þetta var þegar ekkert þótti eðlilegra en að veiða mikið og drepa allt en sem betur fer eru nú breyttir tíma.

Það var um og upp úr síðustu aldamót að loks voru stigin stór skref í þá átt að tryggja hóflega nýtingu í stangveiði í ám landsins. Stærsti áfanginn í því verndarstarfi var þegar sátt náðist um að stöðva svokallaðar maðkaopnanir. Á þessum árum var veitt á maðk framan af sumri, fluguveiði tók við yfir hásumarið og svo var aftur veitt á maðk seinni hluta veiðtitímabilsins. Maðkopnanirnar tóku skelfilegan toll af ánum. Hundruðir laxa voru drepnir í helstu ám landsin á örfáum dögum á hverju ári.

Þessi veiðiskapur heyrir nú góðu heilli sögunni til. Fluguveiði er nú allsráðandi, nýting stofnanna er hófleg og stórum hluta veiddra laxa er gefið líf.

Veiðimálastofnun lagði til fyrir um áratug að sleppa skyldi öllum laxi 70 cm og stærri. Öllum stórlaxi er þvi sleppt ósködduðum út í náttúruna í sjálfbærum ám landsins.

Þessi aðgerð hefur skilað sér svo um munar. Tveggja ára laxinn er nú að koma hratt og örugglega til baka. Sést það hvað best í borgfirsku ánum þar sem hlutdeild stórlaxa hefur farið úr því að vera innan við 10 prósent (2004-2010) í 25-30 prósent (2013-2015).

Á undanförnum árum hefur svo veiðst mesti fjöldi stórlaxa síðan 1990.

Með því að veiða og sleppa er hægt að sjá til þess að nægur lax verði eftir í ánum í lok veiðitíma til að styðja við góða hrygningu að hausti. Sjálfbærni stofnanna er því tryggð.

 

Aðeins 1 prósent eftir af villta Atlantshafslaxinum

Eins og nafnið ber með sér gekk lax í flestar ár beggja vegna Atlantshafsins. Besta laxveiðiá heims var talin áin Rín en í hana gengu árlega um ein milljón villtra laxa. Lax hefur hins vegar ekki veiðst í Rín tæp 100 ár og hið sama á því miður einnig við um aðrar helstu ár þess tíma, Thames, Signu, Hudsoná í New York og fjölda annara ársvæða við Atlantshaf. Ofveiði, mengun, súrnun sjávar og nú laxeldi í opnum sjókvíum hefur útýmt um 99 prósent villtra Atlantshafslaxa í heiminum. Það er aðeins 1 prósent eftir.

Íslendingar stigu það gæfuspor 1932 að banna laxveiðar í sjó. Færeyingar og Grænlendingar héldu þó sínum laxveiðum í sjó áfram en við þessi lönd er ætisslóð villtra laxa yfir vetrarmánuðina. Þessi veiði hafði mjög mikil og neikvæð áhrif á laxastofna og heimtur úr sjó.

 

NASF og nýjar aðferðir í laxvernd

Árið 1991 stofnaði Orri Vigfússon North Atlantic Salmon Fund (NASF). Hófst þar með brautryðjendastarf hans á sviði laxverndar sem fólst meðal annars í samningum um netauppkaupum við Grænland, Færeyjar og víðar.

Orri var ástríðufullur stangveiðimaður en honum tókst að safnaði milljörðum króna í baráttu sinni fyrir verndun laxins sem runnu svo áfram til netauppkaupa og laxverndar. Fjármagn í þá baráttu kom frá erlendum umhverfssamtökum sem aftur fjármögnuðu starfsemi sína aðallega með framlögum úr röðum stangveiðimanna. Þá gáfu fjársterkir einstaklingar út röðum erlendra veiðimanna og Íslandsvina háar fjárhæðir til að tryggja að net færu ekki í sjó við Færeyjar og Grænland. Orri samdi um að laxinn yrði keyptur óveiddur. Laxinn gat því skilað sér í heimaána að sumri. Rétt er að taka fram að engar opinberar greiðslur voru að baki þessum uppkaupum.

 

Netauppkaup í Hvitá í Borgarfirði

Netaveiði var þó stunduð áfram í miklum mæli í ám víða um Ísland land og hjuggu stór skörð í villta laxastofna. Þúsundir laxa rötuðu til dæmis í net í Hvítá og Ölfusá á leið sinni í bergvatnsárnar.

Byggt á starfi Orra vöknuðu upp hugmyndir um að ná sambærilegum samningum um netauppkaup og NASF hafði tekist að ná við sína viðsemjendur.  Þetta reyndist snúið en samningar náðust þó loks árið 1992 við veiðifélag Hvítár í Borgarfirði um að netaveiðum yrði hætt gegn því að greitt yrði árlega fyrir óveiddan lax. Tóku greiðslur mið af fjölda veiddra laxa í net árin á undan. Bergvatnsárnar ofar í vatnakerfinu greiddu reikninginn og voru þær greiðslur fjármagnaðar með veiðitekjum af stangveiði.

Þegar hér er komið sögu var því búið að stöðva allar laxveiði í sjó kringum Ísland og netaveiði í ám að mestu lögð af.

 

Hófleg nýting

Nú kann einhver að spyrja: af hverju ekki að hætta laxveiðum á stöng og friða laxinn alfarið? Ástæðan er einföld. Áætlað er að laxveiðin skili mörgum milljörðum inn í þjóðarbúið á ári hverju og það eru þessi verðmæti sem tryggja nauðsynlegt fjármagn til netauppkaupa og laxverndar.

Tekjur af stangveiði skipta einnig sköpum fyrir sveitir landsins, yfir 2.000  lögbýli hafa af þeim tekjur og störf. Þannig koma á Vesturlandi 67 prósent atvinnutekna í landbúnaði frá veiðihlunnindum, á Austurlandi er talan 37 prósent. Á landinu í heild koma 28 prósent atvinnutekna í landbúnaði frá þessum hlunnindum sem hafa kynslóð eftir kynslóð verið ein meginstoð búsetu í sveitum. Ef þessi tekjustofn brestur munu fjölmargar fjölskyldur þurfa að bregða búi.

Annað sem er vert að hafa í huga er að verði stangveiðin lögð af þá skal enginn halda að lax verði ekki veiddur. Þvert á móti er fyrirséð að netin fara aftur niður. Veiði við Færeyjar og Grænland mun hefjast að nýju ef fjármagn verður ekki tryggt til að greiða áfram fyrir uppkaup þeirra.

Við núverandi aðstæður er eina leiðin til að tryggja tilvist villtu laxastofnanna stofnanna hófleg nýting þeirra líkt og gert er með aðra stofna við Ísland.

 

Ísland er síðasta vígi Norður-Atlantshafslaxins

Mikil og þörf umræða stendur nú yfir um þær hættur sem sjókvíaeldi á norskum laxi hefur á villta laxastofna og náttúru landsins. Ólíku er saman að jafna, annars vegar því markmiðið að halda dýri á lífi með sem minnstum skaða með veiða og sleppa aðferðinni, og hins vegar sjókvíaeldi þar sem um 20 prósent af fiski lifa ekki af aðstæðurnar sem skepnunum eru búnar. Skelfilegt hefur verið að fylgjast með hamförunum í sjókvíunum í Arnarfirði undanfarna daga þar sem hefur verið dælt upp tugþúsundum af dauðum löxum um og yfir fimm kíló. Því miður er þetta árviss viðburður í þessum iðnaði.

Stangveiðimönnum ásamt öðrum náttúruverndarsinnum tókst með harðfylgi að snúa við þróun sem stefndi villtum íslenskum laxastofnum í mikla hættu. Þeirri baráttu er hvergi nærri lokið.

Laxeldi í sjókvíum á iðnaðarskala er stórkostleg ógn við innlenda laxastofna.

Ábyrgð okkar er mikil. Ísland er síðasta vígi Atlantshafslaxins. Honum hefur verið eytt víðast annars staðar, eða stofnarnir eiga mjög undir högg að sækja meðal annars vegna þessa að erfðablöndunin við eldislax hefur skert getu þeirra til að komast af í náttúrunni.

Við viljum standa vörð um lífríki Íslands og segjum því nei við laxeldi í opnum sjókvíum.

Ingólfur  Ásgeirsson