Halldór Hermannsson fyrrverandi skipstjóri og útgerðarmaður á Ísafirði, lést á dvalarheimilinu Hlíf í gær, 22. janúar. Halldór var fæddur á Svalbarði í Ögurvík í Ísafjarðardjúpi 2. janúar 1934. Halldór fluttist með foreldrum sínum ellefu ára gamall til Ísafjarðar og bjó þar síðan.
Snemma fór Halldór til sjós með föður sínum og var síðar stýrimaður og skipstjóri á ýmsum bátum og skipum frá Ísafirði. Hann átti og gerði út báta ásamt Óskari Jóhannssyni frá Dynjanda frá Ísafirði um árabil og starfræktu þeir einnig rækjuverksmiðju um tíma.
Halldór var hafnarvörður og lóðs við Ísafjarðarhöfn. Halldór var formaður skipstjórafélagsins Bylgjunnar um árabil og síðar var hann formaður Félags eldri borgara á Ísafirði.
Halldór Hermannsson tók virkan þátt í stjórnmálum og stóð að stofnun Frjálslynda flokksins með bróður sínum Sverri og var fyrir alþingiskosningar 1999 í efsta sæti á framboðslista flokksins í Norðurlandskjördæmi eystra. Halldór var mjög gagnrýninn á kvótakerfið við fiskveiðistjórnun.
Eftirlifandi eiginkona Hallldórs er Katrín Gísladóttir, húsfreyja og fyrrverandi skrifstofumaður á Ísafirði. Börn þeirra eru Bergljót, Gunnar, Ragnheiður, Rannveig, Gísli Halldór, Hermann Jón og Guðmundur Birgir. Barnabörnin eru 19 og barnabarnabörnin 12.