Drangavíkurkærunni vísað frá vegna aðildarskorts

Héraðsdómur Vestfjarða vísaði í gær frá dómi kröfu 10 landeigenda af 16 jarðarinnar Drangavíkur. Málið var dómtekið í byrjun ágúst og  fóru stefnendur fram á flýtimeðferð og var á það fallist. Við fyrirtökur í málinu kom í ljós að lögmaður stefnanda taldi ekki jafnmikla þörf á flýtimeðferð og í fyrstu var talið, segir í dómnum.

Stefnendur kröfðust þess að ógilt yrði deiliskipulag Árneshrepps og framkvæmdaleyfi til Vesturverks ehf fyrir vegagerð og efnistöku vegna rannsóknar til undirbúnings Hvalárvirkjun yrði fellt úr gildi. Þá kröfðust stefnendur þess að  hinir stefndu, Árneshreppur og Vesturverk ehf  greiddu málskostnað.

Árneshreppi og Vesturverki ehf kröfðust báðir þess að málinu yrði vísað frá og til vara að þeir yrðu sýknaðir auk þess að þeim yrði greiddur málskostnaður úr hendi stefnenda.

Aðalskipulagsbreytingar vegna undirbúningsframkvæmda fyrir Hvalárvirkjun voru samþykktar 2018 og deiliskipulagið í júní 2019. Framkvæmdaleyfið var svo gefið út 1. júlí 2019. Framkvæmdir á grundvelli leyfisins eru ekki hafnar en eru yfirvofandi, segir í dómnum. Hins vegar eru hafnar framkvæmdir á Ófeigsfjarðarvegi.

Það er Orkustofnun sem gefur út rannsóknarleyfið fyrir virkjuninni og er það frá 2015 og gildir til 2021.

Stefnendur höfðu í júní 2019 kært deiliskipulagið og framkvæmdaleyfið til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál og krafist stöðvunar framkvæmda meðan málið væri til meðferðar hjá nefndinni. Því var hafnað þar sem framkvæmdir yrðu ekki svo óafturkræfar að það réttlætti stöðvun. Fram kemur í dóminum að sjö kærumál séu til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni vegna Hvalárvirkjunar.  Eftir að dómsmálið var höfðað ákvað úrskurðarnefndin að bíða með afgreiðslu á öllum kærumálunum þar til dómsniðurstaða lægi fyrir.

Athugasemdir dómarans

Í niðurstöðu dómsins segir að hryggjarstykkið í málatilbúnaði kærenda sé að landamerki jarðarinnar Drangavíkur séu í raun önnur en frá greinir í þinglýstum heimildum. Um þau landamerki sé deilt. Eigendur Engjaness og Ófeigsfjarðar lýsa sig ósammála og einnig a.m.k. einn eigandi  Drangavíkur, en sú jörð er i óskiptri eigu. Segir svo í dómnum að stefnendur geri ráð fyrir því að deilan um landamerki verði útkljáð í öðru dómsmáli og segir dómarinn að hann hafi við munnlegan málflutning áréttað að þetta mál væri ekki landamerkjamál  enda væri ekki eigendur aðliggjandi jarða ekki aðilar að dómsmálinu nú. Þá kemur óvenjulegur texti í dómnum sen sýnir hvað dómaranum hefur þótt málflutningurinn vera á hálum ís. Dómarinn segist hafa ítrekað gert  athugasemdir við málflutning stefnenda þegar fjallað var um hvað væri rétt landamerki jarðarinnar.

Landamerkin hingað til ágreiningslaus

Segir í dómnum að ekkert geti rökstutt það að  við úrlausn málsins verði miðað við önnur landamerki en þau sem hingað til hafa verið talin gilda. Bent er á að Umhverfisstofnun hafi 2019 miðað við sömu landamerki við tillögu sína um friðun Dranga og er í umhverfismati að Hvalárvirkjun og sömu afstöðu er að finna í kröfu Fjármála- og efnahagsráðherra til Óbyggðanefndar fyrir hönd ríkisins vegna þjóðlendumörk í Strandasýslu þar sem byggt er á því að Engjanes eigi land að Drangajökli. Einnig sé byggt á sömu landamerkjum í aðalskipulagi Árneshrepps 2005 – 2025. Ekki sé að sjá að ágreiningur hafi verið gerður við landamerkin sem eru  frá 1890 fyrr en nú. Segir svo í dómnum að sönnunarbyrðin um önnur landamerki jarðarinnar Drangavíkur en stuðst hafi verið við hingað til hjóti að hvíla á þeim sem gera ágreininginn og ekki hægt að fallast á að leggja sönnunarbyrðina á þá sem stefnt er í málinu. Niðurstaðan í dómnum er að stefnendur geti ekki byggt kröfu sína á eignaréttindum og þar með eigi þeir ekki neina beina hagsmuni í málinu.

Ekki grenndarréttur

Næst er tekið til athugunar  í dómnum hvort kærendur geti reist dómkröfur sínar á almennum grenndarrétti. Bent er á að hverfandi ef nokkur áhrif af framkvæmdum verði á landi kærenda og auk þess sé það rask afturkræft. Þá séu allar framkvæmdir upp á heiði en land Drangavíkur  sé í dal umlukt fjöllum ,því séu sjónræn áhrif varla nokkur, enda séu tveir fjallgarðar milli framkvæmdasvæðisins og lands Drangavíkur. Fellst dómurinn ekki á það að röskun verði á eignarréttarlegum hagsmunum Drangavíkur vegna hávaða , sjónmengunar eða annarra atriða sem geti réttlætt aðild stefnenda á grundvelli grenndarsjónarmiða.

Þá fellst dómurinn heldur ekki á að aðild stefnenda geti falist í því að óbyggð víðerni séu í hættu með fyrirhuguðum framkvæmdum. Það séu almannahagsmunir sem séu ekki á forræði þeirra sem höfða málið.

Að öllu samanlögðu er það niðurstaðan að vísa málinu frá dómi og stefnendum gert að greiða hinum stefndu málskostnað 600.000 kr. hvorum um sig.

Lárentsínus Kristjánsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.