ÚUA: Kröfu um ógildingu rekstrarleyfa Fiskeldis Austfjarða vegna laxeldis hafnað

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur í tveimur úrskurðum (nr. 29 og 30/2019) sem féllu þann 19. desember 2019 hafnað kröfu um ógildingu ákvörðunar Matvælastofnunar frá 21. mars sl. um að veita Fiskeldi Austfjarða hf. rekstrarleyfi fyrir annars vegar 9.800 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Berufirði, þar af að hámarki 6.000 tonna ársframleiðslu á frjóum laxi og hinsvegar 11.000 tonna ársframleiðslu á laxi í sjókvíum í Fáskrúðsfirði, þar af að hámarki 6.000 tonna ársframleiðslu á frjóum laxi.

Þá hafnaði nefndin einnig með tveimur úrskurðum (nr. 26 og 28/2019) kröfu sömu aðila um að fella úr gildi starfsleyfi sem Umhverfisstofnun hafði veitt fyrir ofangreindri starfsemi.

Náttúruverndarsamtök Íslands, náttúruverndarfélagið Laxinn lifi, Veiðifélag Breiðdæla, Veiðifélag Hofsár og Sunnudalsár, Veiðifélag Selár og Veiðifélag Vesturdalsár kærðu framangreinda ákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar.

Kröfu Veiðifélags Hofsár og Sunnudalsár, Veiðifélags Selár og Veiðifélags Vesturdalsár, sem eru öll í Vopnafirði,  var vísað frá nefndinni bæði hvað varðar rekstrarleyfið og starfsleyfið. Úrskurðarnefndin segir að fiskeldið sem kært er sé  fjarri Vopnafirði, í Berufirði og Fáskrúðsfirði:

„Þótt ekki sé hægt að útiloka að lax úr fyrirhuguðu eldi gangi í ár í Vopnafirði og hafi einhver áhrif á hagsmuni þeirra kærenda sem á því byggja verður ekki talið að þeir hagsmunir séu verulegir með hliðsjón af fjarlægð ánna frá fiskeldi leyfishafa, þeim takmarkaða fjölda laxa sem sennilegt verður að telja að í þær geti gengið og þeim veiku áhrifum sem ætla má að af því hljótist. Uppfylla þeir hagsmunir því ekki skilyrði þess að geta talist lögvarðir í skilningi stjórnsýsluréttar.“

Í úrskurðinum komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ekki væru þeir form- eða efnisannamarkar á undirbúningi eða meðferð rekstrarleyfisákvörðunar Matvælastofnunar og starfsleyfisveitingu Umhverfisstofnunar að ógildingu varði og var af þeim sökum kröfu kærenda um ógildingu hafnað.