Skógarbændur á Vestfjörðum: ósáttir við minni greiðslur vegna girðinga

Fram kom á síðasta aðalfundi félags skógarbænda á Vestfjörðum, sem haldinn var að Reykhólum, að Skógræktin hefur hætt  með öllu föstum viðhaldsgreiðslum vegna girðinga, en bændur geta eftir sem áður sótt sérstaklega um styrk ef þeir hafa orðið fyrir miklum skaða sem kostar endurnýjun girðinga. Naomi Bos, formaður félagsins segir að skógarbændur séu ekki sáttir við þessar breytingar og hafa þess vegna sent út bréf til að mótmæla þessari breytingu og hafa skorað á Skógræktina að upplýsa skógarbændur betur.

Skógrækt fjárfesting til framtíðar

Í skýrslu stjórnar sem lögð var fram á aðalfundinum og Naomi Bos flutti segir að á síðustu áratugum hafi skógrækt breyst mjög mikið:

„Skógrækt er ekki lengur bara áhugamál, heldur líka atvinnugrein sem og mikilvæg fjárfesting til framtíðar. Mikilvægi skógræktar er ekki bara að binda kolefni, heldur bætir skógrækt lífið á margan hátt. Skógarbændur gegna mikilvægu hlutverki, þar sem við leggjum til bæði vinnu og landið okkar til þess að efla skógrækt. Mér finnst þess vegna að við megum vera stolt að vera hluti af því að skapa betri heima fyrir okkur sjálf sem og komandi kynslóðir. Því saman erum við á réttri leið.“

Stjórn félags skógarbænda á Vestfjörðum skipa: Naomi Bos, formaður, Svavar Gestsson, ritari og Sólveig Bessa Magnúsdóttir, gjaldkeri.