Einleikjabúðir Act alone

Þingeyri. Mynd: aðsend.

Einleikjahátíðin Act alone í samstarfi við Blábankann á Þingeyri blæs til einstakra einleikjabúða á Þingeyri. Einleikjabúðirnar verða haldnar helgina 1. – 3. nóvember í Leiklistarmiðstöð Kómedíuleikhússins og Blábankanum á Þingeyri. Kennarar verða þeir Elfar Logi Hannesson, einleikari og stofnandi Act alone, og Rúnar Guðbrandsson, leikstjóri. Skráning í einleikjabúðir Act alone er þegar hafin og gengur vel  því nú eru aðeins 4 sæti laus. Einleikjabúðagaldið er sérlega einstakt aðeins 30.000.- krónur. Ekkert mál er að útvega gistingu á góðum prís á Þingeyri fyrir þá sem þess óska. Smiðjan er opin bæði áhuga- sem atvinnufólki.

Það er einfalt að skrá sig í einleikjabúðir Act alone, sendið einfaldlega tölvupóst á netfangið info@blabankinn.is

Óskað er eftir því að hver þátttakandi komi með í einleikjabúðirnar eina 5. mín. einræðu sem unnið verður með. Í einleikjabúðum Act alone verður farið í helstu grunnþætti leikarans í einleik og ýmsar æfingar sem og fjölbreyttar spunaæfingar. Ein-stakir fyrirlestrar verða um sögu einleiksins bæði hér heima og erlendis. Farið verður yfir hvar megi finna efni til einleiksgerðar og rætt um hinar mörgu tegundir einleiksins.

Í lok búðanna verða einræðu verkefni smiðjunnar sýnd fyrir íbúa Þingeyrar. Þar munu áhorfendur jafnframt kjósa sína uppáhalds einræðu. Einræðan sem flest atkvæði hlýtur verður sýnd á Act alone 2020.

DEILA