Vesturbyggð: lagt til að lækka inntökualdur í leikskóla í 12 mán

Araklettur á Patreksfirði.

Fræðslu- og æskulýðsráð Vesturbyggðar leggur til  að viðmiðunaraldur lækki úr 14 mánuðum í 12 mánuði í leikskóla Vesturbyggðar frá og með haustinu 2020. Þá er lagt til viðmið um leikrými per barn verði 3,5 fermetrar  og fari aldrei niður fyrir 3,2 fermetra per barn.

Inntaka barna frá 12 mánaða aldri yrði háð því að lágmarksleikrými sé á bilinu 3,2 -3,5m2 per barn og aðeins ef húsrúm leyfir.  Jafnframt skuli við gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár leitað leiða til að að bæta enn frekar starfsmannaaðstöðu og undirbúningsrými og þannig reynt að minnka álag á starfsfólk og bæta starfsumhverfi þeirra sem vinna með börnum.

Bæjarráð Vesturbyggðar ræddi tillögur nefndarinnar á fundi sínum í gær og frestaði afgreiðslu þeirra.

Barnagildi og leikrými

Á sama fundi voru teknar fyrir tillögur leikskólastjóra Arakletts um viðmið um barnagildi á hvern starfsmann og viðmið um leikrými í leikskólum Vesturbyggðar. Fræðslu- og æskulýðsráð samþykkti á fundi sínum, 14. ágúst 2019  viðmið um hámarksfjölda barna á hvern starfsmann með eftirfarandi hætti sem yrðu:

Börn 1-2 ára: 3-4 börn á hvern starfsmann,

börn 2-3 ára: 4-5 börn á starfsmann,

börn 3-4 ára: 5-6 börn á starfsmann,

börn 4-5 ára: 6-7 börn á starfsmann og

börn 5-6 ár: 7-8 börn á starfsmann.

Bæjarráð frestaði afgreiðslu tillagnanna.

DEILA