Forsætisráðherra : verðum að virða leikreglurnar

Athygli hafa vakið ummæli Umhverfisráðherrans Guðmundar Inga Guðbrandssonar, þann 23. júlí í RÚV þegar hann lýsti áhyggjum af framkvæmdum vegna Hvalárvirkjunar og taldi hann æskilegt að bíða með framkvæmdir á meðan enn sé verið að taka kærur vegna framkvæmdanna fyrir. Ráðherrann er yfirlýstur andstæðingur Hvalárvirkjunar.

Forsvarsmenn Vesturverks hef hafa lagt áherslu á að framkvæmdaleyfi fyrir rannsóknunum hefur verið veitt eftir að öllum lögbundnum ferlum hefur verið fylgt og það tók á annan áratug að ljúka því verki. Benda þeir á að um sé að ræða rammaáætlun þar sem allir aðilar hafa getað komið að sínum ábendingum og athugasemdum. Sama á við um umhverfismatið og skipulagsbreytingar sveitarfélagsins. Þessum ferlum er lokið með þeirri niðurstöðu að leyfi er fengið.

Forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir var á Alþingi þann 22. mars 2018 spurð um afstöðu sína til virkjunar Hvalár. Það var Ólafur Ísleifsson sem hóf umræðuna og sagði að aðrar leiðir væru færar „til þess að tryggja íbúum Vestfjarða örugga afhendingu á raforku en að stórspilla náttúrunni með því að virkja Hvalá á Ströndum og spurði  „hvort hin óbyggðu víðerni á hálendi Vestfjarða verði varin fyrir áhrifum virkjunar Hvalár á Ströndum?“

Í svari sínu sagði Katrín Jakobsdóttir að Hvalárvirkjun væri í nýtingarflokki rammaáætlunar og lagði áherslu á að það hefði verið ákvörðun Alþingis. Þá sagði ráðherrann að þetta væri ferillinn „sem við höfum komið okkur saman um hér.“

Forsætisráðherra ræddi spurninguna hvað ætti að gera ef umhverfismat reyndist neikvætt en leyfisveitandinn, sveitarstjórn, samþykkti engu að síður að veita framkvæmdaleyfi. Það sagði hún  stærri spurningu en svo að  varðaði þennan tiltekna virkjunarkost. „Það varðar í raun og veru það hvernig við tökum ákvarðanir almennt um vernd og nýtingu.“

Í lok umræðunnar dró Forsætisráðherra svar sitt saman:

„Við höfum sammælst um ákveðið lagaumhverfi og ákveðinn feril. Við verðum að gera okkur grein fyrir að þegar við erum að fást við þessi mál þurfum við að virða það lagaumhverfi og þann ramma sem Alþingi hefur sjálft sett sér. Það kallar á umræðu, tel ég, hér á Alþingi ef við viljum breyta þeim ramma og þeim ferlum sem við höfum sett niður.“

Forsætisráðherrann virðist samkvæmt þessu ekki sammála umhverfisráðherranum sem vill breyta leikreglunum eftir á sérstaklega varðandi Hvalárvirkjun.