Gagnaver: skapa störf og nýta orku

Fréttaskýring:

Í tengslum við umræðuna um Hvalárvirkjun hefur töluvert verið rætt um að orka nýrra virkjana fari einkum til gagnavera. Sýnist hverjum sitt um það. Arnar Þór Sævarsson, var bæjarstjóri á Blönduósi um árabil og vann að því að koma þangað gagnaveri sem þegar er risið og tekið til starfa. Hann þekkir því vel til málsins og er eindreginn stuðningsmaður uppbyggingar á gagnaverum.

Framkvæmdir á Blönduósi hófust 2018 eftir margra ára undirbúningstíma og í maí síðastliðnum  var framkvæmdum lokið, risið 4000 fermetra gagnaver og rekstur þess hafinn. Í gagnveri eru tölvur í þúsundatali og verðmæti þeirra er talið í milljörðum króna.

Arnar Þór segir að það hafi orðið umskipti á Blönduósi við það eitt að fyrsta skóflustungan var tekin. „Fasteignaverð tvöfaldaðist  daginn sem skóflustungan var tekin. Það varð mikil bjartsýni  og það opnuðust allar gáttir“ segir Arnar Þór. „Fermetraverðið var um 150 þúsund kr en er núna um 300 þúsund krónur. Það er hærra en í Borgarnesi.“

Að sögn Arnars þórs þurfti sveitarélagið lítið að leggja fram vegna gagnaversins, helst voru það fráveituframkvæmdir.

„Það eru mörg störf sem fylgja gagnaveri, Varlega áætlað eru það 1 – 1,5 starf fyrir hvert MW sem gagnaverið notar. Þetta ver notar um 40 MW svo við sjáum að það verður mikil breyting. Rafverktaki á Blönduósi var með 4-5 menn í vinnu en er núna með 20 manns svo dæmi sé nefnt.“

Í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag skrifar Jóhann Þór Jónsson, sem hefur starfað hjá hátæknifyrirtækinu Advania Data Centers, að „Auk fjölda starfa á uppbyggingartíma gagnavers skapar það á bilinu 3-5 bein og afleidd stöðugildi fyrir hvert megavatt af raforku sem nýtt er í rekstrinum.“ Með öðrum orðum Jóhann Þór  telur að bein og óbein störf verði tvöfalt meiri en Arnar Þór áætlar.

Arnar Þór Sævarsson bendir á að gagnaver séu mikið atriði fyrir Landsvirkjun. „Það er þjóðhagslega hagkvæmt að nota raforkuna þar sem hún er framleidd. Það minnkar töpin sem verða við flutning á raforku. Blanda er að framleiða 150-165 MW. Raforkan hefur verið flutt suður og töpin við það eru um 15 – 20 MW.“

Arnar Þór segir að Íslands sé kjörið fyrir gagnaver.“ Loftslag er frekar kalt og orkan er græn.“ Gagnaverin geyma og vinna upplýsingar sem þarf svo að flytja til og frá landinu. Arnar Þór segir að það muni þurfa fleiri sæstrengi til þess að fá stóru gagnaverin til landsins sem byggja á háhraðasambandi, en núverandi tveir sæstrengir séu þó það góðir að hin minni gagnaver eru vel staðsett á Íslandi.

Vilji Íslendingar sækja frekar fram á þessu sviði þarf þriðja sæstrenginn og þá komi hingað stóru fyrirtækin. Sem dæmi nefnir Arnar Þór að um 2009 hafi amerískur banki haft áhuga á að reisa hér gagnaver fyrir sína starfsemi og hann hafi þurft 200 MW.

Svo Hvalárvirkjum með 55MW getur hæglega séð gagnaveri á Vestfjörðum, t.d. í Strandasýslu fyrir orku og skapað fjölmörg störf og ný verðmæti í þjóðarbúið.

-k