Byggðastofnun getur ekki svarað því hve mikið af 300 þorskígildistonna kvóta Byggðastofnunar á Flateyri,sem heimilað var að flytja á skip í Bolungavík, var veitt af því skipi og þá getur Byggðastofnun ekki heldur svarað því hve mikið af aflanum var unninn á Flateyri.
Sérfræðingur Byggðastofnunar svarar því til í gær í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að þessar upplýsingar liggi ekki fyrir. En seinni part ágústmánaðar muni Byggðastofnun senda við út fyrirspurn m.a. til allra aðila sem eru með samning um aflamark og kalla eftir upplýsingum til að átta sig á því á hvernig efndir urðu.
Aðilar að samningnum um byggðafestu á Flateyri eru West Seafood ehf , ÍS 47 ehf, Hlunnar ehf og Byggðastofnun. Fram kemur í samningnum að bátar samningsaðila muni veiða kvótann 400 þorskígildistonn á ári, tveir bátar West Seafood og einn bátur frá hvorum hinna Hlunnum og ÍS 47. Sérstaklega er tekið fram að framsal aflamarks sem úthlutað er samkvæmt samningnum sé óheimilt.
Byggðastofnunarkvóti á aðra báta
Engu að síður flutti Byggðastofnun 300 tonn í þorskígildum talið á Sirrý ÍS að skriflegri ósk samningsaðilanna West Seafood og Hlunnum. Þá var fluttur 50 tonna kvóti á bátinn Eið ÍS 126 sem er í eigu Walvis ehf á Flateyri sem heldur ekki er aðili að samningnum við Byggðastofnun. Gerður var skriflegur samningur milli Walvis og West Seafood sem Byggðastofnun hefur samþykkt þar sem stofnunin flutti umræddan kvóta á Eið Ís 126.
Þegar útgerð Eiðs ÍS 126 neitaði að veiða vegna vanefnda á greiðslum frá West Seafood flutti Byggðastofnun eftirstöðvarnar af 50 tonnunum af bát Walvis á annað skip þrátt fyrir skýrt tryggingarákvæði samningsins milli West Seafood og Walvis sbr 7. grein samningsins. Skuld West Seafood er enn ógreidd að sögn Þorgils Þorgilssonar, eiganda Walvis.
Samningurinn í endurskoðun
Tvisvar á síðustu vikum hefur aflamark Byggðastofnunar verið til umræðu á fundi bæjarráðs Ísafjarðarbæjar en bókað í trúnaðarbók og bæjarstjórinn vill ekkert gefa upp um hvað málið snýst og vísar á Byggðastofnun. Byggðastofnun segir að samningurinn við West Seafood, Hlunna og ÍS 47 sé í skoðun og að ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.
Árlegt verðmæti kvóta Byggðastofnunar gæti verið 70 – 90 milljónir króna. Við það bætist svo byggðakvótinn sem Fiskistofa úthlutar en hann er 420 tonn í þorskígildum. Sá kvóti skiptist reyndar á fleiri útgerðir.