Tónlistarskóla Ísafjarðar synjað um ný stöðugildi 2019

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar samþykkti ekki  beiðni Tónlistarskóla Ísafjarðar um aukin stöðugildi m.t.t. fjárhagsáætlunar 2019, en vísaði málinu til vinnu við fjárhagsáætlun fyrir árið 2020.

Í erindi skólastjóra Tónlistarskólans kemur fram að það sé mat hans að skólinn þurfi 2,70 stöðugildi til viðbótar. Þar af 1,24 stöðugildi vegna nýrra nemenda á Ísafirði og 0,59 stöðugildi vegna nýrra nemenda í útibúum skólans.

Í skýrslu um starfsemi skólans fyrir skólaárið 2018/19 kemur fram að alls hafi verið 306 nemendur við skólann sem reiknast sem 260 nemendur. Námsframboð var fjölbreytt og stöðugildi í kennslu og stjórnun voru 12.78 í lok vorannar.

Kennslufyrirkomulag

Kennt er eftir Aðalnámsskrá tónlistarskóla sem gefin er út af Mennta- og
menningarmálaráðuneytinu. Stefnt er að því að allir nemendur fái 60 mínútur í einkakennslu á viku. Yngstu byrjendurnir (8 ára og yngri) fá þó í einhverjum tilvikum 40 mínútur í einkakennslu á viku, oftast 2x20mínútur og er sú ákvörðun tekin í samráði við kennara og foreldra. Söngnemendur fá þjálfun í söng með undirleik í sérstökum samsöngstímum en þegar þeir hafa lokið grunnstigi geta þeir fengið sérstaka undirleikstíma, nemendur í miðnámi og nemendur í framhaldsstigi fá 30 mínútur á viku.

skólinn nýtur velvildar

Í skýrslunni segir um styrki til skólans:

Skólinn hefur alltaf notið velvilja samfélagsins. Fyrirtæki og einstklingar hafa styrkt skólann til sérstakra verkefna. Í vetur styrkti DressUpgames Tónlistarskólann sem gerði skólanum
kleift að senda nemendur og kennara þeirra til að taka þátt í Uppskeruhátíð
tónlistarskólanna Nótunni á Akureyri. Þess ber líka geta að HG hefur ávallt útvegað
aðalverðlaun Tónlistarskólans og Ísfirðingafélagið Ísfirðingaverðlaunin. Skólinn og
Tónlistarfélagið hlutu styrki frá Uppbyggingarsjóði og Tónlistarsjóði vegna hátíðarhalda á
sjötugsafmælis Tónlistarskóla Ísafjarðar. Ísafjarðarbær færði skólanum að gjöf mjög fína stóla fyrir nemendur í tilefni 70 ára afmælisins.

Allir eigi rétt á að læra tónlist

Í lokaorðum skýrslunnar segir  skólastjórinn Ingunn Ósk Sturludóttir m.a.:

„Eins og við vitum öll stendur Tónlistarskóli Ísafjarðar á gömlum merg. Hlutverk hans er þó
ekki endilega að skapa tónlistarfólk heldur ekki síður að efla einstaklinginn og styrkja, kynna honum og kenna tónlist. Tónlistarkennsla ætti í mínum huga í rauninni að standa öllum börnum til boða gjaldfrjálst því í tónlistinni eignast þau vin til lífstíðar. Því reynir skólinn að halda skólagjöldum eins lágum og mögulegt er. Við trúum því að tónlistin sé nauðsynleg, að hún sé mannbætandi og auðgi samfélag okkar. Því hefur aðalmarkmið og stefna skólans ætíð verið sú að ALLIR eigi rétt á og fái tækifæri til að læra tónlist og að efla tónlistarlífið í bænum.“