Eldisafurðir: ríflega 10% af verðmæti sjávarafurða

Á fyrstu fjórum mánuðum ársins er útflutningsverðmæti eldisafurða komið upp í 8,6 milljarða króna, sem er talsvert hærri fjárhæð en á öllu árinu 2018 og árin þar á undan. Er um að ræða 71% aukningu í krónum talið á milli ára, en á sama tímabili í fyrra var verðmæti eldisafurða 5,0 milljarðar króna. Er útflutningsverðmæti eldisins ríflega 10% af útflutningsverðmæti sjávarafurða á tímabilinu og hefur hlutfallið aldrei mælst hærra, eins og myndin ber með sér.

Alls voru flutt út 2.135 tonn af eldisafurðum í apríl samanborið við 1.086 tonn í sama mánuði í fyrra. Er aukningin í tonnum talið því 97%.

Útflutningsverðmæti eldisafurða nam 2.070 milljónum króna í apríl samkvæmt tölum sem Hagstofan birti á föstudaginn. Er um met að ræða í útflutningsverðmæti eldisafurða, líkt og verið hefur þá mánuði sem liðnir eru af þessu ári. Í apríl í fyrra nam útflutningsverðmæti eldisafurða 872 milljónum króna, og er því um að ræða 137% aukningu í krónum talið á milli ára. Gengi krónunnar var ríflega 11% veikara í apríl síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra og er aukningin í erlendri mynt því minni fyrir vikið, eða sem nemur um 110%.

Það er Fiskeldisblaðið sem birtir þessar upplýsingar.