Háskólasetur: Tvær meistaraprófsvarnir í dag

Í dag fara fram tvær meistaraprófsvarnir um vestfirsk viðfangsefni í meistaranáminu í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða og hefjast þær kl 13 og kl 16.

Maria Wilke mun verja meistaraprófsritgerð sína í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða. Í ritgerðinni ber Maria saman samfélagsþátttöku og umhverfisfræðikennslu um hafið og ströndina með samanburði á Ísafirði og í sjávarbyggðum á Nýja Sjálandi. Ítarlega lýsingu má finna á ensku. Ritgerðin ber titilinn Coastal and Marine Environmental Education. A study of community involvement in the Westfjords of Iceland and Southern New ZealandVörnin fer fram í Háskólasetrinu og er opin almenningi. Vörnin hefst kl 13.

Leiðbeinendur eru dr. Bradley W. Barr, fastur stundakennari við meistaranámið í haf- og strandsvæðastjórnun og dr. Jenny Rock, lektor miðlun vísinda við háskólann í Otago í Nýja Sjálandi. Prófdómari er dr. Anna Guðrún Edvardsdóttir, aðjúknt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Justin Lee Brown mun einnig verja meistaraprófsritgerð sína í dag. Í ritgerðinni fjallar Justin um dreifingu hnúfubaka í Ísafjarðardjúpi, sjá ítarlega lýsingu í úrdrætti hér að neðan. Ritgerðin ber titilinn Abundance and distribution shifts of humpback whales (Megaptera novaeangliae) in Ísafjarðardjúp Vörnin fer fram í Háskólasetrinu og er opin almenningi og hefst kl 16.

Leiðbeinendur eru dr. Marianne Rasmussen, forstöðukona Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Húsavík og dr. Gísli Víkingsson, sjávarlíffræðingur við Hafrannsóknastofnun. Prófdómari er Astrid Fehling, verkefnastjóri og kennari í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða.

Dreifing hnúfubaka í Ísafjarðardjúpi er rannsóknarefni Justin Brown sem ver meistaraprófsritgerð sína á mánudag.

Útdráttur úr ritgerð Justin

Á tímum loftslagsbreytinga þurfa hinar fjölmörgu tegundir lífvera jarðar að aðlagast. Þetta sést vel þegar breytingar á útbreiðslu tegunda eru skoðaðar. Ferlið verður svo flóknara þegar tegundir nema ný svæði. Það getur leitt til breytinga á tegundasamsetningu þannig að tegundir sem fyrir voru á búsvæðinu láta undan. Þar sem slíkar breytingar geta haft áhrif á öllum þrepum vistkerfisins var í þessu verkefni talið mikilvægt að byrja að rannsaka staðbundna hópa hnúfubaka í Ísafjarðardjúpi. Þessir hvalir voru rannsakaðir í 111 klukkustundir frá maí – september 2018. Gagnasöfnun fór aðallega fram um borð í hvalaskoðunarskipi í reglubundnum ferðum í Ísafjarðardjúpi, en skipið var útbúið eingeisla bergmálsmæli. Staðsetning hvalanna var reiknuð út frá staðsetningu og stefnu skips ásamt mati á fjarlægð hvala frá skipi og hornamælingum miðað við siglingastefnu skipsins. Ljósmyndatöku var beitt til að skilgreina einstaklinga. Stefnt var að atferlisathugunum með aðstoð dróna, en ekki tókst að afla nothæfra gagna. Alls voru greindir 34 mismunandi hnúfubakar í rannsókninni, úbreiðsla hvalanna var kortlögð og myndir af bergmálsmælingum voru varðveittar í nærveru hvala. 15 þessara hvala höfðu sést annars staðar við Ísland eða áður í Ísafjarðardjúpi. Útbreiðsla hnúfubaka breyttist frá mánuði til mánaðar. Upplýsingar frá sjómönnum á svæðinu voru nýttar sem viðbótargögn og einnig til túlkunar á bergmálsgögnum. Það ferli staðfesti niðurstöðurnar að útbreiðsla hnúfubaka í Ísafjarðardjúpi breytist yfir sumarið og að hvalirnir héldu gjarnan til á svæðum þar sem möguleg bráð var til staðar.