Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað verkefnisstjórn til að koma með tillögur um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni. Sérstakur samráðshópur skipaður fulltrúum allra þingflokka og helstu hagaðila mun starfa með verkefnisstjórninni. Gert er ráð fyrir að verkefnisstjórnin skili skýrslu til ráðherra á haustmánuðum 2019.
Í janúar sl. komu fram alvarlegar athugasemdir fram í skýrslu Ríkisendurskoðanda þar sem farið er yfir hlutverk og rekstur Fiskistofu, eftirlit með vigtun sjávarafla, með brottkasti og með samþjöppun aflaheimilda og er ráðherra að bregðast við þeim með skipun nefndarinnar.
Takmarkað eftirlit með vigtun afla
Ríkisendurskoðun segir ljóst „að eftirlit Fiskistofu með vigtun sjávarafla er takmarkað og efast má um að það skili tilætluðum árangri“. Ríkisendurskoðandi leggur til að gerðar verði skýrar kröfur um aðstöðu til vigtunar og eftirlit hafnaryfirvalda. Kanna þarf hvort færa eigi vigtun á hafnarvog undir forræði Fiskistofu og fjölga yfirstöðum eftirlitsmanna hjá vigtunarleyfishöfum.
Brottkastseftirlit veikburða
Eftirlit með brottkasti er sagt „veikburða og ómarkvisst“ í skýrslunni. Hvorki liggja fyrir skýr árangursmarkmið né árangursmælingar. Ríkisendurskoðandi mælist til að kannað verði hvort auka megi samstarf Fiskistofu og Landhelgisgæslu við eftirlit með brottkasti. Þá þurfi að auka viðveru eftirlitsmanna um borð í fiskiskipum og horfa til tækninýjunga við eftirlit.
Kannar ekki samþjöppun
Þriðja atriðið sem Ríkisendurskoðandi hnýtur um í eftirlitshlutverki Fiskistofu varðar eftirlit með samþjöppun veiðiheimilda. „Ekki verður séð að Fiskistofa kanni hvort yfirráð tengdra aðila í sjávarútvegi yfir aflahlutdeildum sé í samræmi við það hámark sem er skilgreint í lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða“ segir í skýrslunni. Ráðast þarf í endurskoðun á 13. og 14. gr. laganna hvað snýr að ákvæðum um bæði yfirráð og tengsl aðila svo tryggja megi markvisst eftirlit með samþjöppun aflaheimilda.
Eftirlitsstofnun með berar hendur
Ríkisendurskoðandi vekur athygli á mikilvægi þess að „Fiskistofa hafi nauðsynleg úrræði og aðföng“ til að sinna eftirliti með skilvirkum og árangursríkum hætti með tilætluðum fælingar- og varnaðaráhrifum. Þá segir „skilgreina þarf skýr árangursmarkmið um eftirlitshlutverk Fiskistofu og grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að þeim verði náð.“
Allar þessar athugasemdir Ríkisendurskoðanda hljóta að verkja upp spurningar hvaða alvara það er að setja á fót stofnun til að sinna eftirliti með verðmætri auðlind þjóðarinnar en ganaga svo frá lögum og reglum að stofnuin er meira og minna ófær um að sinna hlutverki sínu.